Kjartan Henry í eins leiks bann

Ingvar Jónsson og Kjartan Henry Finnbogason í leik Víkings og …
Ingvar Jónsson og Kjartan Henry Finnbogason í leik Víkings og FH síðastliðinn sunnudag. mbl.is/Óttar Geirsson

Kjartan Henry Finnbogason, sóknarmaður FH, hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann vegna olnbogaskots í leik FH gegn Víkingi úr Reykjavík í Bestu deildinni í knattspyrnu um síðustu helgi.

Bannið fær hann fyrir að gefa Nikolaj Hansen, sóknarmanni Víkings, olnbogaskot. Dómarar leiksins sáu ekki atvikið en Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, vísaði málinu til aga- og úrskurðarnefndar.

Nefndin fundaði í dag og komst að þeirri niðurstöðu að Kjartan Henry hafi gerst sekur um grófan og hættulegan leik.

Hann tekur út leikbannið þegar FH heimsækir ÍBV til Vestmannaeyja í Bestu deildinni á sunnudag. Finnur Orri Margeirsson verður einnig í banni hjá FH í þeim leik en hann var rekinn af velli í leiknum gegn Víkingi.

mbl.is