KSÍ varar við svikahröppum

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, hefur varað almenning við svikahröppum fyrir landsleik Íslands gegn Portúgal þann 20. júní. 

Svo mikil eftirspurn var fyrir miðum á landsleik Íslands og Portúgals að uppselt var á leikinn hálftíma eftir að almenn miðasala hófst.

Á Twitter-síðu sinni varar KSÍ við því að fólk reyni að kaupa miða af öðrum aðilum en Tix.is. „Í skilmálum vegna miðakaupa kemur fram að óheimilt sé að áframselja miða í hagnaðarskyni og að slíkt ógildi miðann,“ segir KSÍ. 

„Brask með miða á viðburði af ýmsu tagi er ekki nýtt af nálinni, hvorki hérlendis né erlendis. Rétt er að hafa í huga að allir miðar á landsleiki eru skannaðir við inngangana á Laugardalsvelli,“ bætir KSÍ við. 

„Alþekkt er að miðabraskarar selja miða sem þeir hafa komist yfir oftar en einu seinni, selja sem sagt sama miðann aftur og aftur. Sá sem kaupir miðann af braskaranum getur lent í því að það sé búið að ógilda miðann eða einfaldlega búið að skanna miðann inn á leikvanginn. Farið varlega kæru stuðningsmenn,“ segir KSÍ að lokum í yfirlýsingu sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert