Átta marka drama og titillinn blasir við

Nikolaj Hansen fagnar fyrsta marki leiksins.
Nikolaj Hansen fagnar fyrsta marki leiksins. mbl.is/Óttar

Víkingar náðu fjórtán stiga forskoti í Bestu deild karla í fótbolta á Víkingsvellinum í kvöld þegar þeir sigruðu Breiðablik, 5:3, og Íslandsmeistaratitillinn blasir við þeim.

Víkingar eru komnir með 56 stig á toppnum en Valsmenn eru með 42 stig í öðru sæti, þannig að Víkingsliðið á nú möguleika á að tryggja sér meistaratitilinn í 22. umferðinni, þegar enn verður eftir að leika fimm umferðir í efri hluta deildarinnar. Blikar eru áfram með 38 stig í þriðja sætinu.

Dramað var mikið í Víkinni í kvöld því ekkert bólaði á leikmönnum Breiðabliks og leikskýrsla, sem jafnan á að skila klukkustund fyrir leik, skilaði sér ekki. 

Blikar mættu síðan beint á völlinn, hvíldu langflesta lykilmenn sína, enda var spilað á milli mikilvægra Evrópuleikja, en voru ekkert að tvínóna við það og sóttu af miklum krafti til að byrja með. Víkingar stóðu það af sér og tóku síðan völdin. Kvöldinu lauk síðan með 5:3-sigri Víkinga.

Leikurinn hófst með látum og þar voru Blikar mun djarfari og sóttu hratt. Eftir tvær hornspyrnur átti Ágúst Orri Þorsteinsson gott skot á mark Víkinga á 3. mínútu en rétt fram hjá.

Danijel Dejan Djuric átti síðan gott skot hinum megin á 6. mínútu þegar hann komst í gegnum vörn Blika en varnarmenn Blika eltu hann upp og Brynjar Atli Bragason í markinu varði í horn.

Blikar héldu áfram að hlaupa í sóknir en góðu færin voru hinum megin og á 8. mínútu skaut Erlingur Agnarsson rétt fram hjá stöng Blika, en félagi hans Nikolaj Hansen var hársbreidd frá því að ná að pota boltanum í markið.

Fjörið var enn gangi og Kristófer Ingi Kristinsson átti gott skot á mark Víkinga á 10. mínútu en það fór rétt fram hjá.

Eitthvað var eftir að gefa og á 23. mínútu kom fyrsta markið þegar Birnir Snær Ingason spretti upp vinstri kantinn, lék sér með boltann og beið eftir að Nikolaj Hansen kæmi sér fyrir, sem Daninn gerði,  fékk síðan boltann beint á kollinn og skallaði í hægra hornið.

Víkingar voru komnir á bragðið og eftir góða sókn á 26. mínútu sendi Danijel glæsilega yfir á hægri kant þar sem Aron Elí Þrándarson hlóð í skot en hitti ekki markið.  Gott færi fór í súginn.

Mínútu síðar komst Gunnar Vatnhamar í færi en skalli hans var laus og Brynjar Atli varði í horn.

Blikar voru ekki eins beittir enda búnir að hlaupa af sér hornin, Víkingar biðu eftir því og tóku svo við stjórn leiksins þó þeir mættu alls ekki slaka á, hvort sem var í vörn eða á miðju.

Á 36. mínútu kom næsta mark, Pablo Punyed tók horn frá hægri, boltinn kom niður rétt við markteigslínu þar sem Aron Elís Þrándarson stökk upp og skallaði niður í vinstra hornið.  Þetta var einfalt og afgreitt. Staðan var orðin 2:0.

Blikar voru ekki hættir þó Víkingar væru með undirtökin og á 42. mínútu sendi Andri Rafn Yeoman lúmska sendingu í gegnum vörn Víkinga þar sem Ágúst Eðvald Hlynsson var mættur til að skjóta boltanum undir Ingvar Jónsson í markinu. Staðan var 2:1 og aftur var spenna í leiknum.

Aðeins voru liðnar þrjár mínútur af síðari hálfleik þegar þriðja mark Víkinga kom.  Þá var Erlingur Agnarsson með boltann á hægri væng, gaf síðan fyrir að vinstri stönginni þar sem Danijel skallaði af yfirvegun í hægra hornið og staðan var orðin 3:1.

Þó góðu færin hafi vantað var nægur kraftur í leiknum, margar góðar sóknir lagðar upp en illa gekk að reka endahnútinn á þær og þær sem þó töldust sem skot á mark voru ekki hættulegar.

Fjórða mark Víkinga á 65. mínútu kom síðan upp úr næstu engu þegar vörn Blika var að vandræðast í teignum sínum þegar Helgi Guðjónsson náði af þeim boltanum og renndi til hægri þar sem Matthías Vilhjálmsson var mættur til að skjóta í því sem næst autt markið.

Fimmta markið skoraði Helgi sjálfur á 69. mínútu þegar vörn Breiðabliks sofnaði á verðinum, Helgi skaust í gegn og lyfti boltanum yfir Brynjar Atla í markinu til að koma Víkingum í 5:1.

Til marks um fjörið þá minnkaði Ásgeir Helgi Orrason muninn í 5:2 á 71. mínútu þegar vörn Víkinga tókst ekki að hreinsa frá og hann þrumaði boltanum upp í hægra hornið úr þröngu færi.

Enn var skorað og nú á 75. mínútu þegar Kristófer Ingi Kristinsson var með boltann fyrir utan teig og lét vaða, skotið kom inn við vinstri stöngina og var óverjandi.  Staðan var orðin 5:3 og allt í gangi.

Víkingar juku enn forskot sitt á toppi deildarinnar, komnir með 56 stig og 14 stiga forskot á næsta lið, Val, og einn leikur eftir af 22ja leikja umferðinni en Blikar eru í þriðja sæti með 38 stig. 

Í síðustu umferðinni fyrir efri og neðri hluta keppninnar mæta Víkingar Fram í Úlfarsárdalnum en Breiðablik fær FH í heimsókn í Kópavoginn.

Víkingur R. 5:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Fjórum mínútur bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert