Óskar Hrafn skaut á Víkinga

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, skaut á mótherja sína í Víkingi úr Reykjavík fyrir leik liðanna í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. 

Breiðablik hitaði upp á sínum heimavelli og mætti 26 mínútum fyrir leik í Víkina. Þá var leikmannaskýrslan einnig ekki komin á vef KSÍ nema hálftíma fyrir leik en vaninn er að skýrsla liða birtist klukkutíma fyrir leik. 

Talið er að Blikar séu að mótmæla ákvörðun KSÍ um að fresta ekki leiknum en Breiðablik fór þess á leit við KSÍ í síðustu viku að fresta leikn­um til þess að minnka álag Kópa­vogsliðsins sem lék erfiðan leik við Str­uga í Norður-Makedón­íu í undan­keppni Sam­bands­deild­ar UEFA á fimmtu­dag og fær liðið í heim­sókn á Laug­ar­dalsvöll næst­kom­andi fimmtu­dag.

Var beiðni Blika hafnað en félagið lagði fram aðra beiðni sem var einnig hafnað. 

Hafa unnið eitt einvígi á þremur árum

Óskar var til viðtals hjá Stöð 2 sport fyrir leik en þar sagði hann að liðið hafi ákveðið að hita upp á Kópavogsvelli þar sem það er stutt síðan að þeir komu heim frá Norður-Makedóníu. 

Óskar viðurkenndi að hann væri svekktur með ákvörðun KSÍ um að fresta ekki leiknum. „Já ég er það. Við reyndum að fá leiknum frestað og höfum ekki beðið um mikið í þessari Evrópukeppni. 

Við mættum ekki skilningi frá KSÍ og voru margar ástæður fyrir því,“ sagði Óskar meðal annars. 

Óskar skaut síðan á Víkinga. „KSÍ nefndi að Víkingur vildi ekki spila í landsleikjahléinu þótt það liggi fyrir að bæði lið missi leikmenn í sömu landslið, færeyska A-landsliðið og U21 árs landsliðið okkar. 

Ég verð að bera virðingu fyrir því að þeir vildu ekki spila þá, það er ákvörðun Víkinga. Þeir hafa ekki verið í þessari stöðu sem við erum í, þeir hafa unnið eitt einvígi á síðustu þremur árum í Evrópu þannig ég hef fullan skilning á því.“ bætti Óskar við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert