Blikar nýttu ekki færin gegn Zorya í Laugardal

Viktor Karl Einarsson með boltann í kvöld.
Viktor Karl Einarsson með boltann í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik varð að sætta sig við nauman ósigur gegn Zorya Luhansk frá Úkraínu, 0:1, í B-riðli Sambandsdeildar karla í fótbolta á Laugardalsvellinum í dag.

Blikar fengu mörg góð marktækifæri í leiknum, sérstaklega í síðari hálfleiknum þegar Mykyta Turbalevskyi í marki Zorya varði þrívegis glæsilega frá þeim og Gísli Eyjólfsson átti skot i þverslá. Þá munaði engu að Viktor Örn Margeirsson jafnaði metin í uppbótartíma leiksins.

Mark sem Ihor Horbach skoraði á 35. mínútu reyndist því vera sigurmark Zorya í leiknum.

Breiðablik er því án stiga eftir tvær umferðir í riðlinum. Zorya er hins vegar komið með fjögur stig. Gent vann Maccabi Tel Aviv 2:0 í Belgíu og er með 4 stig en Maccabi er með 3 stig.

Lið Zorya hóf leikinn af krafti og þjarmaði að Blikum á fyrstu mínútunum en síðan jafnaðist leikurinn smám saman.

Fyrsta umtalsverða færið fékk Eduardo Guerrero, framherji frá Panama, á 9. mínútu þegar hann fékk boltann hægra megin í vítateignum og reyndi að snúa honum í hornið fjær en naumlega framhjá markinu.

Blikar áttu margar ágætar sóknir í fyrri hálfleiknum en gekk illa að binda endahnútinn á þær. Annað hvort vantaði síðustu lykilsendinguna í sóknina eða þá að Zoryamenn komu í veg fyrir að þeir kæmust í opin færi.

Gísli Eyjólfsson komst í þokkalegt skotfæri á vítateigslínu á 26. mínútu en skaut yfir markið.

Zorya náði forystunni á 35. mínútu. Eftir stutta hornspyrnu frá hægri sendi Denis Antiukh boltann fyrir markið og Ihor Horbach skoraði með skalla í vinstra hornið - staðan 0:1.

Jason Daði Svanþórsson á fleygiferð í dag.
Jason Daði Svanþórsson á fleygiferð í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Horbach fékk síðan besta færi hálfleiksins á 41. mínútu þegar hann slapp einn gegn Antoni Ara Einarssyni markverði sem kom vel út á móti og varði glæsilega frá honum utarlega í vítateignum.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn vel og fengu sitt besta færi til þess tíma á 48. mínútu þegar Gísli var í fínu skotfæri rétt innan vítateigs en hitti boltann illa og skaut framhjá markinu.

Blikar sluppu hins vegar með skrekkinn á 55. mínútu þegar Guerrero komst í gott færi í vítateignum og skaut hárfínt framhjá Hann var tvisvar hættulegur á næstu tveimur mínútum en Blikar bægðu hættunni frá.

En á 58. mínútu kom sannkallað úrvalsfæri Blikanna. Fín sókn, Kristinn Steindórsson með fyrirgjöf frá vinstri og Klæmint Olsen með hörkuskalla af markteig sem Mykyta Turbalevskyi varði glæsilega.

Og þremur mínútum síðar átti Gísli gott skot frá vítateig sem Turbalevskyi varði mjög vel. Þarna hefðu Blikar hæglega getað verið búnir að jafna leikinn.

Enn bönkuðu Blikar hressilega á dyrnar á 68. mínútu þegar Gísli átti skemmtilega skottilraun frá vítateigslínunni vinstra megin, í þverslána og yfir.

Alexander Helgi Sigurðarson í eldlínunni.
Alexander Helgi Sigurðarson í eldlínunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mínútu síðar átti Horbach lúmskt skot úr vítaboganum eftir góðan sprett frá vinstri en Anton Ari sá við honum og varði af öryggi.

Sóknirnar gengu á víxl, Guerrero skaut yfir mark Blika, sem brunuðu upp og Gísli átti hörkuskot af 20 metra færi, yfir mark Zorya.

Á 80. mínútu kom Turbalevskyi markvörður liði Zorya til bjargar í þriðja sinn þegar hann varði skalla Höskuldar Gunnlaugssonar á glæsilegan hátt.

Enn fengu Blikar færi á 86. mínútu þegar Jason Daði slapp inn í vítateiginn eftir gott spil við Kristin Steindórsson en skaut rétt framhjá stönginni fjær.

Í uppbótartímanum munaði svo engu að Viktor Örn Margeirsson jafnaði þegar hann renndi sér á boltann í markteignum en hann fór hárfínt framhjá stönginni hægra megin. Í næstu sókn komst Anton Logi í fínt skotfæri við vítapunkt en varnarmaður Zorya bjargaði glæsilega með því að kasta sér fyrir hann.

Allt kom fyrir ekki og þrátt fyrir galopinn og fjörugan síðari hálfleik fögnuðu Zoryamenn sigri, 1:0, í leik þar sem hæglega hefðu getað verið skoruð fimm til sex mörk. Frammistaða Breiðabliks var virkilega góð, liðið hefði verðskuldað stig eins og leikurinn þróaðist og hreinlega grátlegt að liðinu skyldi ekki takast að jafna.

Breiðablik 0:1 Zorya opna loka
90. mín. 4 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert