Örugglega besta frumraun hjá leikmanni í sögunni

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari. Ljósmynd/Alex Nicodim

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var að vonum ánægður með 1:0-sigurinn á Danmörku í Þjóðadeild UEFA í kvöld og hrósaði markverðinum Fanneyju Ingu Birkisdóttur í hástert.

„Það var bara vinnsla í liðinu. Það var mikill dugnaður og menn lögðu mikið á sig. Auðvitað fengu þær alveg færi og allt það en við vorum að allan tímann og vorum inni í þessu allan tímann.

Mér fannst fyrri hálfleikur góður að mörgu leyti en smá vandræði í færslum. Í seinni hálfleik vorum við kannski ekki í vandræðum í færslum en vorum ekki að ná að verjast fyrirgjöfum vel á köflum.

Þegar leið á voru þær kannski að opna okkur aðeins en Fanney var náttúrlega stórkostleg í markinu,“ sagði Þorsteinn í samtali við RÚV eftir leik.

Hún var stórkostleg

Spurður nánar út í Fanneyju Ingu, sem steig ekki feilspor í sínum fyrsta A-landsleik gegn sterku dönsku liði, sagði hann:

„Þetta var frábært. Þetta var örugglega bara besta frumraun hjá leikmanni í sögunni. Hún var stórkostleg. Við vorum búin að ákveða það fyrir fram að hún myndi byrja þennan leik.

Þó að Telma hefði verið heil og við örugg inni hefði Fanney alltaf byrjað þennan leik. Við vorum raunverulega að undirbúa febrúar og vildum sýna henni það traust og ég held að hún hafi staðið undir því!“

Stoltur af liðinu

Þorsteinn sagði það góðs viti að ljúka keppni í Þjóðadeildinni með sigri.

„Það er mjög gott. Það hjálpar liðinu og sýnir styrk og trú. Það er margt jákvætt sem við höfum verið að gera á þessu ári. Við byrjuðum keppnina vel, við unnum fyrsta leikinn, en svo kom slakur leikur gegn Þýskalandi.

Mér finnst fólk alltaf vera að horfa í það. Einn leikur og það er einhvern veginn alltaf verið að tala um hann. Fótbolti snýst alltaf um næsta leik og ef menn horfa á árið hjá okkur heilt yfir þá er ég mjög stoltur af liðinu. Við höfum þróast allt þetta ár.

Þó að það hafi komið skellur úti í Þýskalandi þá er það bara einn af þessum 13 leikjum sem við höfum spilað. Ef við horfum heilt yfir á árið er ég sáttur við flest allt, þróunina á liðinu og allt sem við höfum verið að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert