Auðvitað er maður ekki sáttur við sjálfan sig

Karólína Lea í eldlínunni í dag.
Karólína Lea í eldlínunni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við gáfum þeim auðvelt mark. Ég vildi gera þetta meira spennandi og sendi hana í gegn,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, landsliðskona í fótbolta, í samtali við mbl.is í kvöld.

Karólína lék allan leikinn á miðsvæðinu fyrir íslenska liðið, sem vann 2:1-sigur á því serbneska í umspili um sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Hafnfirðinginn því hún átti stóran þátt í að Serbía komst yfir strax á 6. mínútu þegar Allegra Poljak refsaði eftir slaka sendingu Karólínu, sem vissi upp á sig sökina.  

„Ég sá ekki Serbann og ég sendi á hana. Þá voru þær tvær á móti einni. Auðvitað er maður ekki sáttur við sjálfan sig þegar maður gerir svona, en þetta er mannlegt,“ útskýrði hún.

Staðan var 1:0 fram að 75. mínútu en þá jafnaði Sveindís Jane Jónsdóttir. Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði svo sigurmarkið á 86. mínútu.

„Mér fannst við vera með góð tök á þessum leik. Ég vissi alltaf að við myndum vinna. Mér leið eins og við værum að fara að skora.

Við fengum fullt af færum og við héldum betur í boltann núna en í síðasta leik. Auðvitað er smá stressandi að vera marki undir í svona mikilvægum leik. Eftir fyrsta markið var ég viss um að við myndum taka þetta.

Ég var voðalega slök. Ég hef trú á mínum liðsfélögum og ég var viss um að við myndum taka þetta. Við höfum alltaf trú á að við skorum og á sama tíma voru varnarmennirnir okkar með framherjann þeirra í vasanum,“ sagði Karólína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka