Bryndís tryggði A-deildarsætið

Ísland tryggði sér sæti í A-deild undankeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu með því að sigra Serbíu, 2:1, í seinni umspilsleik liðanna á Kópavogsvellinum í dag.

Serbar voru yfir stóran hluta leiksins eftir mark frá Allegru Poljak á upphafsmínútunum. Sveindís Jane Jónsdóttir jafnaði á 75. mínútu og lagði upp sigurmarkið fyrir Bryndísi Örnu Níelsdóttur á 86. mínútu.

Þetta var fyrsta mark Bryndísar fyrir A-landslið Íslands, í hennar fjórða landsleik, en hún kom inn á sem varamaður um miðjan síðari hálfleik.

Áhorfendur á Kópavogsvelli voru um 800 og voru vel með á nótunum á lokakafla leiksins og fögnuðu liðinu vel í leikslok.

Ísland vann því einvígi liðanna 3:2 og er í A-deildinni þegar dregið verður í riðla undankeppninnar í næstu viku en Serbía er áfram í B-deild.

Það munar gríðarlega miklu um möguleikana á að komast á EM 2025. Ísland getur tryggt sér sæti þar með því að enda í öðru tveggja efstu sæta síns riðils, en að öðrum kosti fer liðið í umspil gegn liði úr B- eða C-deild um EM-sæti.

Ódýrt mark Serba á 6. mínútu

Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar eftir að hafa jafnað, 1:1.
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar eftir að hafa jafnað, 1:1. mbl.is/Eggert

Serbar byrjuðu leikinn betur undan vindinum og náðu forystunni strax á 6. mínútu. Eftir misheppnaða sendingu íslenska liðsins rétt utan vítateigs slapp Allegra Poljak inn í teiginn hægra megin og skaut föstu skoti í hægra hornið, 1:0 fyrir Serba.

Markið var að vonum áfall fyrir íslenska liðið sem var lengi að ná einhverjum takti í sinn leik en Hildur Antonsdóttir komst þó í ágætt færi á 9. mínútu og skaut beint á markvörðinn og Sædís Rún Heiðarsdóttir reyndi skot af löngu færi í snöggri sókn á 13. mínútu en skaut fram hjá.

Sveindís Jane Jónsdóttir lyftir boltanum yfir serbneska markvörðinn og jafnar, …
Sveindís Jane Jónsdóttir lyftir boltanum yfir serbneska markvörðinn og jafnar, 1:1. mbl.is/Eggert


Ísland fékk síðan tvö virkilega góð færi til að jafna metin. Á 20. mínútu fékk Karólína Lea Vilhjálmsdóttir boltann í miðjum vítateig eftir sprett Sveindísar Jane Jónsdóttur og sendingu Ólafar Sigríðar Kristinsdóttur en náði ekki að halda boltanum niðri og skaut yfir markið.

Tveimur mínútum síðar kom enn betra færi eftir hraða sókn. Karólína skaut frá vítateig, í varnarmann og til vinstri þar sem Sveindís fékk boltann í dauðafæri á markteignum en skaut í hliðarnetið. Þar hefði hún átt að gera betur.

Aðeins tveimur mínútum síðar skaut Vesna Milivojevic á tómt mark Íslands utan af kanti eftir misheppnaða sendingu Telmu út frá markinu en Telma náði að koma sér í markið og verja.

Síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks einkenndust af því að serbnesku leikmennirnir lögðust niður við hvert mögulegt tækifæri til að hægja á leiknum og tókst það ágætlega.

Serbar lengi með forystuna

Sveindís Jane Jónsdóttir með boltann.
Sveindís Jane Jónsdóttir með boltann. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Íslenska liðið sótti af krafti frá byrjun síðari hálfleiks og skapaði sér nokkur hálffæri á fyrstu tíu mínútunum en Serbar lágu til baka og héldu áfram að tefja tímann.

Ísland gerði sterkt tilkall til vítaspyrnu á 63. mínútu þegar boltinn virtist fara í hönd serbnesks leikmanns en dómarinn var ekki sammála.

Serbar áttu sína bestu sókn á 74. mínútu en Vesna Milijkovic hitti ekki boltann eftir sendingu þvert fyrir markið.

Guðrún Arnardóttir og Jovana Damnjanovic eigast við.
Guðrún Arnardóttir og Jovana Damnjanovic eigast við. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveindís jafnaði og lagði upp sigurmarkið

Strax eftir markspyrnuna sendi Alexandra Jóhannsdóttir boltann upp hægra megin og inn fyrir bakvörðinn. Sveindís Jane stakk sér inn fyrir og lyfti boltanum yfir úthlaupandi markvörðinn af 20 metra færi, 1:1. Snyrtilega gert!

Ísland sótti áfram og á 80. mínútu komst Hildur Antonsdóttir í gott færi á markteig en Kostic markvörður var snögg á móti henni og varði vel.

Og á 86. mínútu kom mark númer tvö. Amanda Andradóttir átti langa sendingu út til hægri á Sveindísi, hún brunaði fram hjá bakverðinum og inn í vítateiginn, sendi fyrir markið og Bryndís Arna Níelsdóttir afgreiddi boltann í netið, 2:1.

Serbar settu talsverða pressu á íslenska liðið á lokamínútunum en tókst ekki að skapa sér færi til að jafna metin.

Ísland 2:1 Serbía opna loka
90. mín. Þung sókn Serba og íslensku leikmennirnir kasta sér fyrir skot Serbanna sem koma þeim ekki á markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert