Fannst Serbía betra liðið

Vesna Milivojevic í baráttunni við Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur í dag.
Vesna Milivojevic í baráttunni við Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Svona hefur þetta verið hjá okkur. Við gefum allt í leikina og í dag fannst mér við betra liðið en svo náum við ekki í úrslit,“ sagði svekkt Vesna Milivojevic, miðjukona serbneska landsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is.

Serbía mátti þola 1:2-tap gegn Íslandi í seinni leik liðanna í umspili um sæti í A-deild næstu Þjóðadeildar. Vann Ísland einvígið 3:2 eftir 1:1-jafntefli í Serbíu. „Við vorum svo nálægt því í dag og mér finnst við eiga skilið að vera í A-deildinni,“ sagði hún.

Serbar voru gríðarlega svekktir í leikslok.
Serbar voru gríðarlega svekktir í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allegra Poljak kom Serbíu yfir á sjöttu mínútu, en Sveindís Jane Jónsdóttir og Bryndís Arna Níelsdóttir sneru taflinu við á síðasta korterinu.

„Við misstum einbeitinguna í lokin og gerðum mistök í vörninni. Mér fannst við spila mjög vel í þessum tveimur leikjum og við notum þetta í undankeppni EM. Við ætlum okkur á lokamótið.

Þetta eru auðvitað gríðarleg vonbrigði en við höldum áfram á okkar vegferð. Við getum unnið öll lið og við sýndum það þegar við unnum Þýskaland. Við þurfum að halda áfram þessari frammistöðu og ná í úrslit með,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert