Tekur á að horfa á svona leikaraskap

Þorsteinn Halldórsson á hliðarlínunni í dag.
Þorsteinn Halldórsson á hliðarlínunni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, var kátur eftir 2:1-sigur Íslands á Serbíu í umspili um sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar á Kópavogsvelli í kvöld. Ísland var marki undir í hálfleik en sneri taflinu sér í vil á síðasta korteri leiksins.

„Við lendum undir snemma og það var ekki að hjálpa okkur. Í framhaldi á því fara þær að hægja leikinn og reyna allt sem þær geta til að drepa leikinn. Það var erfitt en við komum af krafti inn í seinni hálfleikinn.

Leikurinn róast svo og við það koma þær að framan og þá opnast fyrir aftan þær. Við fáum svo gott færi sem Sveindís skorar úr,“ sagði Þorsteinn.

Þjálfarateymi Íslands syngur þjóðsönginn í dag.
Þjálfarateymi Íslands syngur þjóðsönginn í dag. Eggert Jóhannesson

Serbar reyndu hvað þeir gátu til að tefja leikinn í stöðunni 1:0 og hvað eftir annað lágu leikmenn serbneska liðsins eftir.

„Auðvitað tekur á að horfa á svona leikaraskap út og suður en það er partur af þessu. Þetta kom okkur ekki á óvart,“ sagði þjálfarinn.

Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði sigurmark íslenska liðsins skömmu fyrir leikslok með sínu fyrsta landsliðsmarki. Hún kom inn á sem varamaður skömmu áður.

„Við höfum rætt mikilvægi leikmanna sem eru á bekknum. Þeir þurfa að vera tilbúnir að hafa áhrif. Það er ekki að ástæðulausu sem þeir eru í hópnum og Bryndís sýndi hvað hún er mikilvæg þegar hún var réttur maður á réttum stað.“

Með því að halda sæti sínu í A-deild Þjóðadeildarinnar aukast möguleikar Íslands á að komast á EM í Sviss á næsta ári töluvert.

„Það getur skipt miklu máli. Við eigum möguleika á að komast beint á EM en við erum að fara að spila við eitthvað af bestu liðum Evrópu. Við þurfum að halda áfram að bæta okkur og verða betri,“ sagði Þorsteinn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert