Þá var maður heldur betur stressaður

Ísak kátur í leikslok.
Ísak kátur í leikslok. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Skagamaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson kom inn á sem varamaður á 62. mínútu er íslenska landsliðið í fótbolta vann glæstan sigur á Ísrael, 4:1, og tryggði sér úrslitaleik við Úkraínu í umspili um sæti á lokamóti EM.

Ísak þurfti að vera snöggur að komast í takt við leikinn, því hann kom óvænt inn á þegar Arnór Ingvi Traustason meiddist.

„Það var stress en ég vildi koma inn og finna sendingar fram á við og koma á stöðuleika á miðjuna. Ég fékk ekki alveg allar upplýsingarnar þegar ég var að koma inn á en ég reyndi að koma inn og stjórna miðjunni,“ sagði hann við mbl.is eftir leik.

Íslenska liðið fagnar marki í kvöld.
Íslenska liðið fagnar marki í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Roy Revivo fékk beint rautt spjald á 73. mínútu hjá Ísrael og skömmu síðar skaut Eran Zahavi framhjá úr víti, en atvikin gerðust í stöðunni 2:1. Ísland gekk á lagið í kjölfarið.

„Þá var maður heldur betur stressaður. Það var rauða spjaldið líka og mikið í gangi þarna. Albert skorar svo frábært mark, kemur okkur í 3:1, og þá getum við slakað á. Við héldum samt áfram og skoruðum fjórða markið. Það var ótrúlega sætt að klára þetta.“

Ísland leikur við Úkraínu í Wroclaw í Póllandi næstkomandi þriðjudagskvöld og tryggir sér sæti á lokamóti EM í Þýskalandi í sumar með sigri.

„Það er mjög skemmtileg tilfinning. Það hefðu ekki margir séð það gerast fyrir einu ári. Það er ótrúlega skemmtilegt að fá að taka þátt í þessu.

Úkraína er með sterkt lið og er stór þjóð. Ég held þetta verði skemmtilegur leikur. Bæði lið eru með gæði. Við unnum Bosníu um daginn og Bosnía stóð í þeim. Ég held þetta verði hörkuleikur,“ sagði Ísak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert