Gæti verið síðasta tækifærið

Sverrir Ingi Ingason á æfingu landsliðsins á leikvanginum í Wroclaw …
Sverrir Ingi Ingason á æfingu landsliðsins á leikvanginum í Wroclaw í dag. Ljósmynd/Alex Nicodim

Sverrir Ingi Ingason, varafyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, vonast til þess að komast á sitt þriðja stórmót en það tekst ef Ísland sigrar Úkraínu í úrslitaleiknum í Wroclaw annað kvöld.

„Ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að fara tvisvar á stórmót og þetta er eitthvað það skemmtilegasta sem ég hef tekið þátt í,“ sagði Sverrir á fréttamannafundi Íslands í Wroclaw í dag.

„Það myndi gefa þessu landsliði svakalega mikið að fá slíka reynslu. Þetta er frábært tækifæri, við erum einum leik frá EM, og ég get lofað því við munum leggja allt í sölurnar á morgun til að ná okkar markmiðum.

Sem fótboltamaður veistu aldrei hve mörg slík tækifæri þú færð. Þetta gæti verið mitt síðasta tækifæri til að komast með landsliðinu á stórmót, og fyrir fleiri í liðinu. Margir aðrir eru rétt að byrja og við erum staðfráðnir í að nýta tækifærið. Þetta eru stærstu stundir fótboltamanns, að spila fyrir þjóð sína á stærsta sviðinu," sagði Sverrir.

Var í öðruvísi hlutverki

Spurður hvort leikurinn gegn Úkraínu væri einn alstærsti leikurinn á hans ferli, þrátt fyrir stórmótin tvö svaraði Sverrir að það mætti alveg færa rök fyrir því.

"Ég var í öðruvísi hlutverki á hinum mótunum, þá var ég að stíga mín fyrstu skref með landsliðinu, og það hjálpaði mér mikið á þeim tímapunkti á ferlinum að hafa fengið að taka þátt í báðum þessum verkefnum.

Í dag myndi svona stórmót gefa fullt af leikmönnum sem nú eru í sömu stöðu og ég var á þeim tíma tækifæri til að komast lengra á styttri tíma. Þetta eru leikirnir sem þú vilt spila sem fótboltamaður, það er allt undir, fullur völlur, og spilað upp á eitthvað sem skiptir öllu máli.

Við erum fullir sjálfstrausts og þurfum fyrst og fremst að trúa því sjálfir að við getum gefið Úkraínumönnum góðan leik á morgun," sagði Sverrir Ingi Ingason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert