Blikar stóðust FH-pressuna

Blikar fagna fyrsta marki leiksins.
Blikar fagna fyrsta marki leiksins. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik sigraði FH, 2:0, í síðasta leiknum í fyrstu umferð Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvellinum í kvöld.

Blikar eru þar með eitt af fimm liðum deildarinnar sem eru með þrjú stig eftir fyrstu umferðina. FH eitt af fimm liðum sem eru án stiga.

Breiðablik var sterkari aðilinn frá byrjun og uppskar mark strax á 14. mínútu. Í kjölfarið á hornspyrnu sendi Viktor Karl Einarsson boltann fyrir mark FH frá hægri. Jason Daði Svanþórsson fékk boltann vinstra megin í vítateignum og skaut laglega í hornið nær, 1:0.

Blikar voru líklegri til að bæta við en FH-ingar að jafna, réðu ferðinni á vellinum á löngum köflum, og á 41. mínútu fékk Kristinn Steindórsson frábæra sendingu frá Höskuldi Gunnlaugssyni frá hægri. Hann skaut frá vítateig í stöngina vinstra megin, þaðan fór boltinn þvert fyrir markið og aftur fyrir endamörkin hægra megin.

En strax í kjölfarið fékk FH sitt besta færi í fyrri hálfleik. Ástbjörn Þórðarson átti góða fyrirgjöf frá hægri og Sigurður Bjartur Hallsson reis hæst við vítapunktinn og skallaði en hárfínt framhjá Blikamarkinu hægra megin.

Staðan var því 1:0 í hálfleik. Heimir Guðjónsson freistaði þess að hrista upp í FH-liðinu með tveimur skiptingum í hálfleik og fór úr 3-4-3 í 4-3-3 en reynsluboltarnir Björn Daníel Sverrisson og Finnur Margeirsson mættu til leiks.

Anton Ari Einarsson í marki Breiðabliks í kröppum dansi í …
Anton Ari Einarsson í marki Breiðabliks í kröppum dansi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

FH-ingar fengu fyrsta hættulega færi síðari hálfleiks á 52. mínútu þegar Kjartan Kári Halldórsson fékk boltann vinstra megin í vítateig Blika og átti hættulegt skot á stöngina nær sem Anton Ari Einarsson gerði vel að verja í horn.

FH-ingar gerðu harða hríð að marki Blika næstu mínútur og heimamenn voru nánast í nauðvörn um tíma. Björn Daníel átti síðan skalla að marki Blika á 61. mínútu en rétt yfir þverslána.

Blikar sluppu fyrir horn á 70. mínútu þegar Sigurður Bjartur virtist vera felldur í vítateig þeirra en Ívar Orri dómari var ekki á sama máli. Í kjölfarið komst Kjartan Kári í skotfæri í vítateig Blika og skaut hárfínt yfir markið.

En kraftur og sóknarþungi FH skilaði ekki marki og í staðinn refsuðu Blikar grimmilega á 77. mínútu. Viktor Karl Einarsson átti skot sem Sindri Kristinn Ólafsson varði. Benjamin Stokke, nýkominn inná sem varamaður fylgdi á eftir og skoraði auðveldlega, 2:0.

FH-ingar náðu ekki sama krafti á lokakaflann og fyrr í hálfleiknum, sóttu þó meira, en Blikar vörðust mjög vel og héldu fengnum hlut tiltölulega örugglega.

Breiðablik 2:0 FH opna loka
90. mín. 7 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert