Naumt tap stúlknanna í lokaleiknum

U19-ára landsliðið fyrir leik gegn Króatíu um helgina.
U19-ára landsliðið fyrir leik gegn Króatíu um helgina. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska stúlknalandsliðið skipað leikmönnum 19 ára og yngri mátti sætta sig við tap gegn jafnöldrum sínum frá Austurríki, 2:3, í lokaumferð undankeppni EM 2024 í Sesvete í Króatíu í morgun.

Þar með hafnar Ísland í þriðja sæti af fjórum liðum í 2. riðli með 3 stig. Írland vann riðilinn með því að vinna alla þrjá leiki sína og fer á EM á meðan gestgjafar Króatíu fengu ekkert stig og falla niður í B-deild.

Í leiknum í morgun komst Austurríki þrisvar í forystu á meðan Ísland jafnaði metin í tvígang.

Austurríki náði forystunni á 17. mínútu áður en Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, leikmaður Breiðabliks, jafnaði metin eftir rúmlega hálftíma leik.

Austurríki endurheimti forystuna á lokamínútu fyrri hálfleiks en Bergdís Sveinsdóttir, leikmaður Víkings úr Reykjavík, jafnaði metin á ný fyrir Ísland á annarri mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Snemma í síðari hálfleik skoraði Austurríki svo sigurmarkið og þar við sat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert