Verð að vera stoltur

Blikinn Benjamin Stokke sækir að Vestramanninum Eiði Aroni Sigurbjörnssyni.
Blikinn Benjamin Stokke sækir að Vestramanninum Eiði Aroni Sigurbjörnssyni. mbl.is/Óttar

„Þegar að vítið kemur fjarar þetta út,“ sagði Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, í samtali við mbl.is eftir tap sinna manna fyrir Breiðabliki, 4:0, í Bestu deild karla á Kópavogsvelli í dag. 

Vestri er í neðsta sæti deildarinnar án stiga eftir tvær umferðir. Davíð segir að mark Blika snemma í síðari hálfleik hafi reynst Ísfirðingum erfitt. 

„Við fáum á okkur mark snemma í síðari hálfleik sem riðlar leiknum svolítið. Við erum enn inn í leiknum fram að vítinu og gerðum breytingar á okkar liði til að fá meiri sóknarþunga. 

Ég er sáttur með hvernig við vörðumst í fyrri hálfleik. Á boltanum gátum við hins vegar nýtt stöðurnar mun betur. 

Við vorum ekki nógu góðir að koma boltanum fram völlinn. Þess vegna var leikurinn alltaf fram og til baka. Við náðum engri stjórn á okkar sóknarleik,“ sagði Davíð Smári. 

Allir sammála því 

Eins og áður kom fram er Vestri án stiga í neðsta sæti en liðið hefur ekki undirbúið sig eins og önnur lið vegna aðstæðna á Ísafirði. Davíð segir sitt lið þurfa að nýta þessa leiki til að bæta sig. 

„Ég verð að vera stoltur af mínu liði. Við höfum ekki oft farið á völl í fullri stærð síðan í janúar. Við getum bætt okkur heil mikið og erum með gæðin til þess. Við verðum að nýta okkur þessa leiki til þess að bæta okkur.“

Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra.
Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra. mbl.is/Óttar Geirsson

Vestramaðurinn Elvar Baldvinsson var rekinn af velli á 75. mínútu eftir tæklingu á Jasoni Daða Svanþórssyni. Davíð var ósammála dómnum. 

„Ég held að allir séu sammála um það að þetta hafi verið tæpt rautt spjald,“ bætti Davíð við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert