Sýning Blika í seinni hálfleik

Blikar fagna marki Viktors Karls Einarssonar.
Blikar fagna marki Viktors Karls Einarssonar. mbl.is/Óttar

Breiðablik er komið í toppsæti Bestu deildar karla í knattspyrnu eftir heimasigur á Vestra, 4:0, á Kópavogsvelli í dag.

Blikar eru með fullt hús stiga eftir tvo leiki líkt og KR en með betri markatölu. Vestri er í neðsta sæti án stiga. 

Jason Daði Svanþórsson fékk besta færi fyrri hálfleiksins á 14. mínútu. Þá barst boltinn til hans eftir darraðardans í teignum. Skaut hann þó nokkuð framhjá úr upplagðri stöðu. 

Annars vörðust Vestramenn Breiðabliki vel og héldu stöðunni markalausri inn til búningsklefa. 

Viktor Karl Einarsson kom Breiðabliki yfir eftir aðeins sex mínútuna leik í síðari hálfleik. Þá átti Aron Bjarnason snilldarsendingu á Jason Daða sem potaði honum á Viktor Karl sem smellti boltanum í netið, 1:0. 

Á 62. mínútu krækti Aron í víti fyrir Breiðablik. Þá felldi Serigne Fall Blikann inn í teig Ísfirðinga og Sigurður Hjörtur Þrastarson benti á punktinn. Á hann steig fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson og setti boltann örugglega í netið, 2:0. 

Elvar Baldvinsson fékk rautt spjald á 75. mínútu fyrir ljóta tæklingu á Jasoni Daða. 

Þá kom Ísak Snær Þorvaldsson inn á hjá Breiðabliki stuttu síðar en hann er á láni frá Rosenborg. Fékk hann mikið lófaklapp frá stúkunni. 

Varamaðurinn Dagur Örn Fjeldsted kom Breiðabliki í 3:0 tíu mínútum síðar. Þá barst boltinn til hans á vítateigslínunni eftir hörkuskot frá Patrik Johannessen í stöng og Blikinn smellti honum listilega í netið. 

Fjórða mark Blika kom síðan undir blálok leiks en þá skallaði Kristófer Ingi Kristinsson boltann í Fatai Gbadamosi og þaðan rataði hann í netið.

Breiðablik heimsækir Víking úr Reykjavík í næstu umferð. Vestri heimsækir KA í sömu umferð. 

Breiðablik 4:0 Vestri opna loka
90. mín. Fimm mínútum bætt við síðari hálfleikinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert