Skoraði þrennu á tíu mínútum í Kórnum

Þorsteinn Aron Antonsson, varnarmaður HK, brýtur á Steinari Þorsteinssyni, Skagamanni, …
Þorsteinn Aron Antonsson, varnarmaður HK, brýtur á Steinari Þorsteinssyni, Skagamanni, í leiknum í Kórnum í dag. Þorsteinn fékk rauða spjaldið og ÍA gekk á lagið og skoraði fjögur mörk. mbl.is/Óttar Geirsson

Viktor Jónsson skoraði fyrstu þrennu tímabilsins í Bestu deild karla í knattspyrnu í dag, á aðeins tíu mínútum, þegar Skagamenn unnu mjög öruggan sigur á HK í Kórnum í Kópavogi, 4:0.

Skagamenn eru þá komnir með þrjú stig eftir tvo leiki en HK er með eitt stig.

Staðan var 0:0 í hálfleik en HK missti Þorstein Aron Antonsson af velli með rautt spjald fyrir hlé og Skagamenn nýttu svo sannarlega liðsmuninn í síðari hálfleiknum.

Fyrstu 40 mínúturnar benti þó ekkert til þess að málin myndu þróast svona. Á jöfnum upphafskafla þar sem HK byrjaði aðeins betur fékk Viktor Jónsson fyrsta færið en Arnar Freyr Ólafsson í marki HK varði skalla hans af markteig.

HK fékk hins vegar sannkallað dauðafæri á 19. mínútu. Upp úr hornspyrnu ÍA náði HK skyndisókn og Atli Þór Jónasson komst einn gegn Árna Marinó Einarssyni, markverði Skagamanna, sem varði vel frá honum.

HK-ingar urðu fyrir miklu áfalli á 41. mínútu þegar varnarmaðurinn Þorsteinn Aron Antonsson fékk rauða spjaldið. Hann ætlaði að gefa boltann til baka til markvarðar en hitti hann ekki og braut síðan á Steinari Þorsteinssyni sem var að sleppa í gegn.

ÍA fékk aukaspyrnu fyrir brotið og Marko Vardic skaut beint úr henni af 25 metra færi og Arnar Freyr í marki HK varði vel. Staðan var 0:0 í hálfleik.

Fjögur mörk á átján mínútum

Skagamenn voru ekki lengi að nýta sér liðsmuninn í síðari hálfleik því á 52. mínútu fékk Arnór Smárason boltann frá Steinari í miðjum vítateig og renndi honum yfirvegað í hægra hornið. Skagamenn voru þá komnir yfir, 1:0.

Aðeins þremur mínútum síðar var Viktor í góðu færi eftir fyrirgjöf frá hægri og átti hörkuskalla sem Arnar Freyr varði vel.

ÍA gerði síðan nánast út um leikinn á 60. mínútu þegar Viktor skoraði með viðstöðulausu skoti af stuttu færi eftir að Johannes Vall sendi boltann fyrir markið frá vinstri, 2:0 fyrir ÍA.

Og hafi staðan ekki verið orðin vænleg þarna þá bættu Skagamenn um betur á 66. mínútu þegar Viktor skoraði sitt annað mark eftir snögga sókn og sendingu Steinars Þorsteinssonar, 3:0.

Viktor fullkomnaði síðan þrennu á aðeins tíu mínútum á 70. mínútu þegar hann skoraði fjórða mark Skagamanna eftir fyrirgjöf Johannesar Vall frá vinstri, 4:0.

HK átti þokkalega rispu í kjölfarið þar sem Árni Marinó í marki ÍA varði vel frá George Nunn og síðan frá Birni Breka Burknasyni. Birnir átti síðan góðan skalla eftir aukaspyrnu og hárfínt fram hjá Skagamarkinu.

En þarna voru úrslitin löngu ráðin og Skagamenn sigldu heim mjög öruggum sigri á lokakafla leiksins. Erik Sandberg var nærri því að skora fimmta markið undir lokin en Arnar Freyr varði vel frá honum.

HK 0:4 ÍA opna loka
90. mín. Erik Sandberg (ÍA) á skot sem er varið Vel varið hjá Arnari, út við stöng
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert