Gamla ljósmyndin: Vankaðist en hélt hreinu

Morgunblaðið/KGA

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þessari merkilegu mynd náði Kristján G. Arngrímsson og birtist hún á forsíðu íþróttablaðs Morgunblaðsins 11. júní árið 1991. Bjarni Sigurðsson markvörður Vals vankaðist í leik gegn Fram á Íslandsmótinu í knattspyrnu og Kristján var ekki langt undan með myndavélina þegar hugað var að Bjarna. 

Valur Jónatansson fjallaði um leikinn fyrir blaðið og skrifaði í myndatexta að Bjarni hafi orðið fyrir því óláni að fá spark í höfuðið frá samherja sínum Sævari Jónssyni. Ekki hefur það verið þægilegt enda var Sævar heljarmenni á knattspyrnuvelli og með skotfastari mönnum. Sævar er einmitt áhyggjufullur hægra megin á myndinni en hann og Bjarni léku ófáa leikina saman með Val og landsliðinu. Hilmir Ágústsson sjúkraþjálfari Vals kannar ástandið á Bjarna. Hægri höndina á myndinni á enginn annar en Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Íþróttasambands fatlaðra, sem þá var í þjálfarateymi Vals. 

Fram kemur í blaðinu að Bjarni hafi vankast við höggið en hafi engu að síður leikið allan leikinn. Þess ber að geta að í þá daga voru ekki vinnureglur til að fara eftir varðandi höfuðhögg hjá íþróttafólki eins og í dag. Bjarni lét sér ekki muna um að halda markinu hreinu í 1:0 sigri Vals og segir Morgunblaðið að Bjarni hafi ekki fengið á sig mark í efstu deild í 273 mínútur. Eins og sjá má á myndinni er Bjarni vafinn um höfuðið og hefur það væntanlega verið til að stöðva blæðingu úr skurði á höfðinu. 

Nafn Bjarna Sigurðssonar er kirfilega ritað í sögu Íslandsmótsins því hann var sá fyrsti sem valinn var leikmaður ársins af leikmönnum deildarinnar. Kjörið fór fyrst fram árið 1984 og var Bjarni þá markvörður Íslands- og bikarmeistara ÍA. Bjarni hóf ferilinn með Keflavík eins og margir snjallir markverðir og lék einnig með Stjörnunni hér heima og Brann í Noregi. Lék hann alls 195 leiki í efstu deild Íslandsmótsins og samtals 314 deildaleiki á ferlinum með sínum liðum, 106 þeirra með Brann í norsku úrvalsdeildinni.

Bjarni lék 41 A-landsleik og varði mark Íslands til að mynda í frægum leik í Moskvu þegar Sovétríkin og Ísland gerðu 1:1 jafntefli í undankeppni HM 1990. Sovétmenn tóku fyrst þátt í undankeppni HM fyrir HM 1958 og var þetta í fyrsta skipti sem þeir þurftu að sætta sig við að tapa stigi á heimavelli. 

Íslandsmót karla í knattspyrnu hófst fyrr í mánuðinum og í gær mættust tvö þeirra liða sem Bjarni lék með á sínum tíma, Stjarnan og Valur. mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert