Hafa verið að ná í góð úrslit

Úr leik Íslands og Austurríkis á EM 2017.
Úr leik Íslands og Austurríkis á EM 2017. AFP/Daniel Mihailescu

„Austurríska liðið er mjög líkamlega sterkt. Þær eru grimmar. Þær spila mikið hápressu og eru með mikla hlaupagetu. Þetta verður krefjandi verkefni fyrir okkur að spila á móti þeim,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari á fréttamannafundi er leikmannahópur íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu var tilkynntur í síðustu viku.

Ísland mætir Austurríki í undankeppni EM 2025 í Ried im Innkreis á föstudaginn eftir rúma viku og svo aftur á Laugardalsvelli þriðjudaginn 4. júní.

„Þær hápressa út um allt og það getur verið erfitt að komast í gegnum þær. Við þurfum að nýta okkur klókindi í fyrri leiknum. Við verðum að vera klók í því sem við erum að fara að gera.

Við erum ekki að fara að hlaupa yfir þær eða neitt svoleiðis. Þær eru með þannig lið að allir leikir sem maður hefur skoðað með þeim undanfarið ár hafa verið hörkuleikir,“ hélt Þorsteinn áfram.

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þær hafa verið að ná í góð úrslit. Þetta er gott lið, lið sem er í hærri styrkleikaflokki en við í Evrópu þannig að þetta er bara krefjandi verkefni en um leið skemmtilegt. Ég held að þetta verði tveir hörkuleikir,“ sagði hann einnig.

Fer eftir hvor verður yfir í návígjum

Spurður nánar út í hvað bæri að varast hjá austurríska liðinu sagði Þorsteinn:

„Þær eru sterkar í föstum leikatriðum. Þær vilja vinna boltann hátt uppi. Þær eru mjög góðar í því að keyra fram þegar þær eru búnar að vinna boltann framarlega á vellinum.

Við þurfum að varast það að tapa boltanum inni á miðsvæðinu til þess að fá ekki hraðar sóknir á okkur. Við þurfum að vera klár í hvíldarvörninni til þess að takast á við hröðu sóknirnar.

Við þurfum að vera skipulögð og tilbúin í það. Þegar maður spilar við Austurríki skiptir það rosalega miklu máli hvor verður yfir í návígjunum vegna þess að þær eru mjög grimmar í þeim.

Það er það sem þær vinna leiki á; þær pressa, vinna návígi, vinna boltann eins framarlega og hægt er og keyra svo á þig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert