Var meira en þeir héldu

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari kátur fyrir æfingu í morgun.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari kátur fyrir æfingu í morgun. mbl.is/Gunnar Egill

„Þetta er eitthvað í hælnum eða undir ökklaliðnum. Þetta er eitthvað sem hún varð fyrir í síðasta leik og gat ekki alveg klárað hann,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, spurður hvers vegna Ásdís Karen Halldórsdóttir geti ekki tekið þátt í tveimur leikjum gegn Austurríki.

„Samkvæmt því sem Lilleström sendu okkur eftir þann leik átti þetta ekki að vera neitt, neitt en svo var þetta meira en þeir héldu. Eftir æfingu í gær tókum við ákvörðun um að við þyrftum að gera breytingu,“ sagði Þorsteinn í samtali við mbl.is fyrir æfingu í Salzburg í Austurríki í morgun.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir, leikmaður Bröndby, var kölluð inn í hópinn í stað Ásdísar Karenar og tók þátt á æfingunni í morgun.

Allir klárir í slaginn

Ísland mætir Austurríki í Ried im Innkreis í 4. riðli A-deildar undankeppni EM 2025 á morgun og aftur á Laugardalsvelli á þriðjudagskvöld. Landsliðsþjálfarinn sagði stöðuna á hópnum vera góða.

„Annars eru allir aðrir klárir eins og staðan er í dag. Það eru einhver eymsli hér og þar og smá stífleiki en það er sjúkraþjálfaranna að vinna í því og gera þá leikmenn leikfæra á morgun. Ég hef engar áhyggjur af því að það takist.“

Nánar er rætt við Þorstein ásamt Glódísi Perlu Viggósdóttur landsliðsfyrirliða um leikinn gegn Austurríki í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert