Ísland skellti Englandi á Wembley

Jón Dagur Þorsteinsson í þann mund að skora mark sitt.
Jón Dagur Þorsteinsson í þann mund að skora mark sitt. Ljósmynd/Alex Nicodim

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu kom gríðarlega á óvart í kvöld þegar það sigraði Englendinga, 1:0, í vináttulandsleik á Wembley-leikvanginum í London

Jón Dagur Þorsteinsson skoraði sigurmarkið strax á 12. mínútu og þó Englendingar hefðu sótt mun meira í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik, fékk íslenska liðið færi til að bæta við marki eða mörkum.

Englendingar voru með boltann linnulítið fyrstu 10 mínúturnar, mestmegnis rétt utan vítateigs Íslands, og útlit var fyrir langt og erfitt kvöld hjá íslenska liðinu.

En óvæntir hlutir gerðust strax á 12. mínútu. Stórgóð sókn Íslands, Hákon Arnar Haraldsson lék í átt að marki og sendi út til vinstri á Jón Dag Þorsteinsson. Hann sneri inn á völlinn, við vítateiginn fór hann framhjá John Stones og þrumaði síðan boltanum með jörðinni í hornið nær. Ísland var komið yfir, 1:0.

Marki Jóns Dags fagnað.
Marki Jóns Dags fagnað. Ljósmynd/Alex Nicodim


Englendingar sóttu áfram og á 17. mínútu átti Hákon Rafn Valdimarsson markvörður slæma sendingu frá markinu, beint á Cole Palmer. Hann skaut úr góðu færi en Daníel Leó Grétarsson bjargaði með því að komast fyrir boltann sem fór í horn.

Enska liðið fékk síðan eitt gott færi til viðbótar á 28. mínútu þegar Palmer lyfti boltanum inn á markteiginn þar sem Harry Kane var mættur en hann hitti boltann illa og skóflaði honum yfir markið.

Íslenska liðið hélt boltanum lengur og lengur eftir því sem leið á hálfleikinn, sjálfstraustið óx með hverri mínútu. Á lokamínútu hálfleiksins átti liðið fallega sókn upp vinstra megin, Jón Dagur lék meðfram endalínunni og inn í vítateiginn, renndi út á Arnór Ingva Traustason sem átti hörkuskot i varnarmann og horn.

Markinu fagnað.
Markinu fagnað. Ljósmynd/Alex Nicodim


Sverrir Ingi Ingason tók á sig gult spjald í kjölfarið þegar enska liðið reyndi að ná skyndisókn og þar með fór Ísland með óvænta forystu inn í leikhléið, 1:0.

Englendingar hófu seinni hálfleik af krafti og á 49. mínútu átti Phil Foden hættulegt skot eftir sendingu Anthony Gordons en rétt framhjá stönginni hægra megin.

Cole Palmer komst í hættulega stöðu á 51. mínútu en Daníel Leó lokaði vel á hann þannig að skotið endaði tiltölulega meinlaust í hliðarnetinu. Rétt á eftir slapp Palmer einn gegn Hákoni Rafni sem þvingaði hann í skot úr vonlausu færi og varði það.

Ísland fékk svo sannarlega tækifæri á 63. mínútu til að komast í 2:0. Hákon Arnar slapp innfyrir vörn Englands og inn í vítateiginn. Í stað þess að skjóta renndi hann boltanum fyrir markið á Jón Dag sem var ekki alveg mættur á staðinn, renndi sér en boltinn fór langt framhjá.

Ljósmynd/Alex Nicodim


Og Ísland fékk annað dauðafæri á 67. mínútu. Jón Dagur tók hornspyrnu frá vinstri og á stönginni fjær var Sverrir Ingi einn gegn markverði en Ramsdale varði skalla hans vel.

Jón Dagur gerði sig enn líklegan á 70. mínútu en þrumufleygur hans hitti Marc Guéhi, miðvörð Englands, í höfuðið þegar hann kastaði sér fyrir skotið.

Íslenska liðið komst miklu betur inn í leikinn þegar leið á seinni hálfleikinn og setti enska liðið undir pressu á nokkrum góðum köflum.

Ljósmynd/Alex Nicodim


Kolbeinn Birgir Finnsson átti stórskemmtilega tilraun af 30 metra færi á 76. mínútu þegar Ramsdale varði naumlega í horn frá honum.

Englendingar ógnuðu ekki marki Íslands langtímum saman eftir því sem leið á hálfleikinn en sóttu stíft á lokamínútunum. Það skilaði engu og vonsviknir enskir áhorfendur voru farnir að yfirgefa leikvanginn í hrönnum eftir að fimm mínútna uppbótartími hófst.

Ljósmynd/Alex Nicodim
Ljósmynd/Alex Nicodim
Ljósmynd/Alex Nicodim
Ljósmynd/Alex Nicodim
Ljósmynd/Alex Nicodim
Ljósmynd/Alex Nicodim
Ljósmynd/Alex Nicodim
Ljósmynd/Alex Nicodim
Ljósmynd/Alex Nicodim
Ljósmynd/Alex Nicodim
England 0:1 Ísland opna loka
90. mín. Bukayo Saka (England) á skot sem er varið Færi! Saka nær skoti úr teignum eftir flottan sprett en Daníel Leó gerir vel í að komast fyrir það og hreinsa frá í leiðinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert