Tottenham verður að vinna titla

Glenn Hoddle spilaði með Tottenham á sínum tíma.
Glenn Hoddle spilaði með Tottenham á sínum tíma.

Glenn Hoddle, fyrrverandi leikmaður Tottenham og þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að Tottenham verði að vinna titla og borga hærri laun ef liðið vilji halda þjálfaranum og bestu leikmönnunum hjá félaginu.

Tottenham hefur verið í efstu fjórum sætunum undanfarin ár og hefur bætt sig mikið eftir að Mauricio Pochettino tók við sem knattspyrnustjóri liðsins. En Hoddle telur að félagið verði að taka næsta skref á næstunni ef ekki á illa að fara:

„Þeir verða að vinna einhver verðlaun. Það er staðan. Ég sagði það í fyrra og ég segi það núna.“

„Þú vilt enda í topp fjórum og komast í Meistaradeildina, og það er mikilvægt, en ef liðið ætlar að halda þjálfaranum og bestu leikmönnunum hjá félaginu þarf það að gera atlögu að og vinna nokkra titla.“ 

„Leikmenn á borð við Harry Kane, Dele Ali og Christian Eriksen vilja vinna titla og það þarf að gerast núna því að liðið er nógu gott til þess að gera atlögu að bikurum.“

Þrátt fyrir gott gengi Tottenham á undanförnum árum hafa forsvarsmenn félagsins ekki farið fram úr sér og hækkað laun leikmanna úr öllu valdi. Þar er ákveðinn launastrúktúr sem er ekki brugðið út af. Glen Hoddle segir að Tottenham gæti þurft að bíta í það súra epli að hækka laun leikmanna til að komast hjá því að missa leikmenn frá sér:

„Vandamálið eru launin sem hin liðin eru tilbúin að borga. Ég hef alltaf sagt að bestu leikmennirnir eru hverrar krónu virði en þegar þú sérð leikmenn með 250.000 pund á viku og suma sem eru með meira en það, það er ótrúlegt.“

„Ég hélt aldrei að við myndum komast í þessa stöðu, en þetta er orðið normið núna, og ef Tottenham vill ekki borga leikmönnum sínum þessi laun mun leikmannahópurinn leysast upp, þetta er staðan.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert