Óánægður á Old Trafford

Bruno Fernandes er sagður þéna í kringum 100.000 pund á …
Bruno Fernandes er sagður þéna í kringum 100.000 pund á viku hjá United. AFP

Bruno Fernandes, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er ósáttur með stöðu sína hjá félaginu. Það er Sportsmail sem greinir frá þessu.

Fernandes, sem er 27 ára gamall, gekk til liðs við United frá Sporting í janúar 2020 og hefur verið einn besti leikmaður liðsins frá því hann kom.

Miðjumaðurinn hafnaði nýju samningstilboði félagsins rétt fyrir áramót að því er Sportsmail greinir frá en hann er sagður þéna í kringum 100.000 pund á viku hjá félaginu.

Fernandes er sagður vilja fá í kringum 350.000 pund á viku sem er aðeins minna en þeir Cristiano Ronaldo og David de Gea þéna hjá félaginu.

Það er upphæð sem forráðamenn United eru ekki tilbúnir að borga Portúgalanum eins og sakir standa en hann er samningsbundinn United til sumarsins 2025.

Þrátt fyrir óánægju Portúgalans hafa forráðamenn United litlar áhyggjur af stöðu mála enda nægur tími til þess að endursemja við leikmanninn sem hefur sjö mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert