Zouma fyrirskipað að sinna samfélagsþjónustu

Kurt Zouma mætir fyrir rétt í morgun.
Kurt Zouma mætir fyrir rétt í morgun. AFP/Daniel Leal

Kurt Zouma, varnarmanni enska knattspyrnufélagsins West Ham United, hefur verið fyrirskipað að sinna 180 klukkustunda samfélagsþjónustu eftir að hann gekkst við því fyrir rétti í síðasta mánuði að hafa níðst á ketti sínum.

Var honum einnig meinað að eiga ketti sem gæludýr í fimm ár.

Í síðasta mánuði játaði Zouma sök í tveimur ákæruliðum sem sneru að því að hafa sparkað í og slegið köttinn, sem bróðir hans Yoan tók myndskeið af og fór síðar í dreifingu á samfélags- og vefmiðlum fyrr á árinu.

Fyrir rétti í dag var Kurt gert að sinna 180 tíma samfélagsþjónustu og Yoan 140 tímum.

Yoan, sem leikur með Dagenham & Redbridge í utandeildinni á Englandi, hafði játað sök í einum ákæruliðisem sneri að því að aðstoða, veita ráðgjöf eða fá eldri bróður sinn til þess að fremja af­brot.

„Þið tókuð báðir þátt í þessu svívirðilega og vítaverða athæfi í garð þessa gæludýrakattar. Kötturinn var upp á ykkur kominn þegar kom að því að hugsa um þarfir hans.

Þennan dag í febrúar sáuð þið ekki fyrir þörfum hans. Þið verðið að átta ykkur á því að aðrir líta upp til ykkar og fjöldi ungs fólk vill feta í fótspor ykkar,“ sagði Susan Holdham, dómari hjá Thames-rétti, í morgun þegar hún kvað upp dóma sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka