Manchester United setur fjölmiðla í bann

Erik ten Hag.
Erik ten Hag. AFP/Yasin Akgul

Fulltrúar Manchester Evening News, staðarmiðilsins í Manchester, fá ekki að mæta á blaðamannafund Eriks ten Hag, knattspyrnustjóra Manchester United, fyrir leik liðsins gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni sem fram fer í dag.

Það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu en ástæðan fyrir fjölmiðlabanni miðilsins er neikvæð umfjöllun hans í garð ten Hags sem kemur í kjölfarið á verstu byrjun United síðan árið 1962.

Ásamt Manchester Evening News hefur þremur öðrum fjölmiðlum verið meinaður aðgangur að blaðamannafundi Hollendingsins í dag en ekki kemur fram hvaða miðlar það eru í frétt Manchester Evening News.

Fjölmiðlafulltrúi United, Andrew Ward, segir að bannið sé einnig tilkomið vegna frétta sem tengjast því að ten Hag sé að missa búningsklefann og þá hefur þeim fjölmiðlum, sem fá að mæta á fundinn, verið bannað að spyrja ákveðinna spurninga á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert