Klopp var glaðasti maður í heimi (myndskeið)

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var vægast sagt sáttur eftir sigur liðsins gegn Luton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í 26. umferð deildarinnar á Anfield í gær.

Liverpool var án margra lykilmanna í leiknum, og lenti undir strax á 12. mínútu, en tókst að snúa leiknum sér í vil í síðari hálfleik og skora fjögur mörk.

Með sigrinum náði Liverpool fjögurra stiga forskoti á toppi deildarinnar en liðið er með 60 stig, Manchester City er með 56 stig og Arsenal er með 55 stig en bæði City og Arsenal eiga leik til góða.

Klopp fagnaði vel og innilega með stuðningsmönnum Liverpool eftir leikinn og fagnaði með öllum fjórum hlutum stúkunnar á Anfield en hingað til hefur hann mestmegnis fagnað með KOP-stúkunni á Anfield þar sem hörðustu stuðningsmenn liðsins eru jafnan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert