Klopp: Enginn vill sjá lið vinna fernuna

Jürgen Klopp fagnar sínum áttunda titli hjá Liverpool á sunnudag.
Jürgen Klopp fagnar sínum áttunda titli hjá Liverpool á sunnudag. AFP/Glyn Kirk

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur einu sinni sem áður gagnrýnt leikjadagskrána á Englandi.

Liverpool á fyrir höndum leik gegn Southampton í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar annað kvöld, aðeins þremur dögum eftir að hafa unnið enska deildabikarinn og er enn í baráttu á þremur vígstöðvum til viðbótar.

„Enginn í þessu landi vill sjá lið vinna fernuna, þess vegna fer næsta umferð í ensku bikarkeppninni fram þremur dögum eftir úrslitaleikinn,“ sagði Klopp í samtali við beIN Sports eftir sigur á Chelsea, 1:0, í úrslitaleik deildabikarsins á sunnudag.

Meiðslalisti Liverpool er afar langur og bættust þeir Ryan Gravenberch og Wataru Endo á hann eftir sigurinn á sunnudag.

„Ég hef ekki hugmynd um hverjum við munum geta teflt fram í leiknum á miðvikudag. Hver sem er gjaldgengur og leikfær til að klæðast keppnistreyju mun taka þátt í leiknum gegn Southampton,“ bætti þýski stjórinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert