Þurfum kraftaverk fyrir nokkra leikmenn

Betur fór en á horfðist með meiðsli Ryans Gravenberch.
Betur fór en á horfðist með meiðsli Ryans Gravenberch. AFP/Adrian Dennis

Á fréttamannafundi í dag greindi Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, frá því að Ryan Gravenberch geti ekki tekið þátt í leik liðsins gegn Southampton í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar annað kvöld.

Gravenberch meiddist á ökkla í 1:0-sigri Liverpool á Chelsea í úrslitaleik enska deildabikarsins á sunnudag.

„Hann verður ekki með. Hann meiddist á liðböndum en þetta hefði getað verið mun verra.

Þetta er samt nægilega slæmt að hann verður ekki með í þessum leik. Við þurfum að sjá til með næsta leik á eftir,“ sagði Klopp.

Vil ekki útiloka neinn

Hann bætti því við að ekki væri víst hvort Wataru Endo, Mohamed Salah, Darwin Núnez og Dominik Szoboszlai geti spilað annað kvöld.

„Wataru fékk alvöru högg líka. Ég myndi ekki segja að það hafi batnað mikið frá því á sunnudag.

Við þurfum á kraftaverki að halda þegar kemur að nokkrum leikmönnum. Því vil ég ekki útiloka neinn en þetta stendur tæpt. Með Darwin, Mo og Dom þurfum við að sjá hvað gerist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert