Klopp: Tökum því ekki sem sjálfsögðum hlut

Jürgen Klopp faðmar markaskorarann Lewis Koumas í gærkvöldi.
Jürgen Klopp faðmar markaskorarann Lewis Koumas í gærkvöldi. AFP/Paul Ellis

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var að vonum í skýjunum eftir að liðið tryggði sér sæti í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar með 3:0-sigri á Southampton í 16-liða úrslitum í gærkvöldi.

„Þetta var frábær leikur. Southampton er með frábært lið, það sáu það allir. Þeir fengu frábær færi og við þurftum á Caoimhín [Kelleher] að halda til að bjarga okkur,“ sagði Klopp í samtali við ITV eftir leik.

Hann hrósaði þá ungum leikmönnum Liverpool í hástert. Hinir 18 ára gömlu Lewis Koumas og Jayden Danns skoruðu mörk liðsins í leiknum, og sá síðarnefndi var með tvennu.

„Lewis er frábær í að afgreiða færi en þeir verða að halda áfram að læra og þróa sinn leik. Dannsy er ekki síðri fyrir framan markið.

Þetta var ótrúlega vel gert í fyrra markinu hans og það síðara sýndi markanef hans,“ bætti þýski stjórinn við.

Mjög erfiðar aðstæður

Alls voru 14 leikmenn aðalliðs Liverpool fjarverandi í gærkvöldi vegna meiðsla og veikinda. Af þeim sökum hefur Klopp að undanförnu þurft að reiða sig á leikmenn unglingaliðsins og hafa þeir svarað kallinu ákaflega vel.

„Við viljum ekki að allt snúist um okkur. Aðstæðurnar eru mjög erfiðar. Jákvætt andrúmsloft í búningsklefanum og á æfingasvæðinu er gott fyrir okkur því við erum á mjög erfiðum tímapunkti og reynum að finna lausnir.

Það er frábært að komast í átta liða úrslit og við tökum því ekki sem sjálfsögðum hlut. Við áttum skilið að komast áfram. Þetta var frábær frammistaða,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert