Jóhann Berg trúir á kraftaverk

Jóhann Berg Guðmundsson, Vincent Kompany og Zeki Amdouni eftir 4:1-sigur …
Jóhann Berg Guðmundsson, Vincent Kompany og Zeki Amdouni eftir 4:1-sigur á Sheffield United um helgina. AFP/Darren Staples

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Burnley, segir alla hjá enska félaginu hafa trú á því að liðið geti haldið sér uppi í ensku úrvalsdeildinni.

Burnley hefur átt afar erfitt uppdráttar á tímabilinu og vart yfirgefið fallsvæðið. Þrátt fyrir það er staðan sú að liðið er einungis þremur stigum frá öruggu sæti eftir að hafa unnið sér inn fjögur stig í síðustu tveimur leikjum.

„Við höfum trú á því að við getum kallað fram eitthvað sérstakt. Það eru fjórir bikarúrslitaleikir eftir. Við erum allir saman í þessu í búningsklefanum,“ sagði Jóhann í samtali við Daily Mail.

Burnley á fjóra leiki eftir í úrvalsdeildinni á tímabilinu: útileik gegn Manchester United, heimaleik gegn Newcastle United, útileik gegn Tottenham Hotspur og loks heimaleik gegn Nottingham Forest.

„Við áttum okkur á því að við erum í erfiðri stöðu en við verðum að trúa því að við getum fengið eitthvað út úr hverjum einasta leik.

Hann [Vincent Kompany knattspyrnustjóri] trúir því að við getum haldið okkur uppi. Hann hefur sagt það frá fyrsta degi og segir enn,“ bætti Jóhann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert