Keyptur á 150 milljónir eftir sigurinn í Laugardal

TenZ í góðum gír á Valorant Masters mótinu.
TenZ í góðum gír á Valorant Masters mótinu. Ljósmynd/Facebook TenZ

Jack Etienne, formaður Cloud9, hefur tilkynnt að Sentinels hafi gengið frá kaupum á samningi við leikmanninn Tyson „TenZ“ Ngo. Á Sentinels að hafa greitt fyrir hann rúmlega 150 milljónir íslenskra króna.

VCT Masters-mótið kláraðist nýlega í Laugardalshöllinni þar sem keppt var í fyrstu persónu skotleiknum Valorant. Sentinels sigruðu Fnatic í úrslitaleiknum og unnu þar með bikarinn þrátt fyrir að skorta lykilmann liðsins, Sinatraa.

Leikmaður á láni kosinn sá verðmætasti

Tyson Ngo, betur þekktur sem TenZ var fenginn til liðsins í láni frá Cloud9 í mars til þess að keppa með þeim á meðan Sinatraa er fjarverandi. Lánið á TenZ kostaði 30 milljónir íslenskra króna með möguleika á því að kaupa hann alveg yfir í liðið í enda apríl.

TenZ hefur reynst liðinu mætavel og var kosinn dýrmætasti leikmaður úrslitaleiksins en hann var stigahæstur að meðaltali á mótinu.

Getur treyst þeim öllum

„Það liggur í augum uppi að gáfulegast væri fyrir mig að halda áfram að spila með Sentinels. Liðið er hreint út frábært. Ég skemmti mér með þeim og get treyst þeim öllum. Þeir eru bestu liðsfélagar sem ég hef nokkurn tíman haft, og ég myndi virkilega vilja halda áfram hjá þeim ef ég hefði kost á völ. Ég virkilega vona það, svo ég bið fyrir því,“ sagði TenZ á blaðamannafundi eftir mótið.

Svo virðist sem bænum TenZ hafi verið svarað en eins og fyrr var getið tilkynnti Jack Etienne, formaður Cloud9, í gær að Sentinels hefði gengið frá samningi við TenZ og fyrir rúmlega 150 milljónir íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert