Fimm tölvuleikir sem fá hárin til að rísa

Skjáskot úr hryllingsleiknum Phasmophobia.
Skjáskot úr hryllingsleiknum Phasmophobia. Skjáskot/youtube.com/KingdomTwelve

Margir njóta þess að spila hryllingsleiki sem fá hjartað til að slá hraðar og hárin til að rísa. Til er fjöldinn allur af mismunandi tölvuleikjum sem byggjast á hryllingi og snúast um að hræða leikmenn. Margir þessara leikja eru fjölspilunarleikir, sem gera leikmönnum kleift að spila með vinum.

Deceit

Flestir þekkja til leiksins Among Us, en Deceit er hægt að líkja við hryllingsútgáfu af þeim leik. Í leiknum eru tveir svikarar, sem sýktir eru af hryllilegum sjúkdómi, og þurfa þeir að fella alla leikmenn innan leiksins til þess að sigra. Erjur gætu myndast á milli vina þar sem lygar eru mikilvægur hluti af árangri í leiknum. Umhverfi leikmanna í leiknum er dimmt og hræðilegt sem gerir leikinn hryllilegan.

GTFO

Leikurinn er fyrstu-persónu skotleikur þar sem fjórir leikmenn eru saman í teymi. Teymi leikmanna eru neydd til að kanna neðanjarðargöng á meðan þau klára verkefni sem úthlutað hefur verið af dularfullum aðilum. Leikurinn snýst um að klára þessi verkefni til þess að geta flúið hræðilegt umhverfi í neðanjarðargöngunum. Þurfa leikmenn að laumast um til að vekja ekki sofandi skrímsli í göngunum og skipuleggja hvernig best sé að fella þau. 

Dead By Daylight

Í leiknum Dead By Daylight spilar einn á móti fjórum öðrum leikmönnum. Sá sem er einn í liði á að reyna að fella alla hina leikmennina til þess að sigra. Þeir leikmenn sem eru fjórir saman þurfa í samvinnu að keppast við að halda sér á lífi og vernda hver annan. Umhverfi leiksins er dimmt svo auðvelt er að fela sig í myrkrinu og læðast upp að öðrum leikmönnum til að gera þeim bilt við.

Phasmophobia

Í leiknum rannsaka leikmenn yfirskilvitlega atburði sem tengjast draugum. Allt að fjórir leikmenn geta spilað leikinn saman. Rannsókn leikmanna snýst um að bera kennsl á þá drauga sem verða á vegi þeirra. Geta leikmenn meðal annars haft samskipti við draugana ásamt því að nota ýmis tól til þess að finna staðsetningar og upplýsingar um þá innan leiksins. Mismunandi tegundir drauga hafa mismunandi eiginleika sem ber að varast en ef ekki er farið varlega geta draugarnir fellt leikmenn. Hljóðlátt og dimmt umhverfi gerir upplifun spilara drungalega og hryllilega. 

The Forest

Leiknum er lýst sem leik þar sem markmiðið er að lifa af. Það er þó hægara sagt en gert, en leikurinn er uppfullur af hryllingi. Allt að átta leikmenn geta spilað saman þar sem þeir kanna lifandi eyju og byggja gildrur og virki til að vernda hópinn fyrir óvinum. Því fleiri leikmenn sem spila saman, því erfiðara verður að lifa af. Leikmenn safna upplýsingum og hlutum til að undirbúa nóttina, en á næturnar birtast hættulegir erfðafræðilega stökkbreyttir óvinir sem svipar til manneskja. mbl.is