Tveir leikmenn ófelldir í Laugardalshöll

ShowMaker, leikmaður DWG Kia, er einn tveggja leikmanna sem hefur …
ShowMaker, leikmaður DWG Kia, er einn tveggja leikmanna sem hefur farið ófelldur í gegnum fyrstu umferð riðlakeppninnar. Ljósmynd/Riot Games

Þrjú lið hafa farið ósigruð í gegnum fyrstu umferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í League of Legends sem nú fer fram í Laugardalshöll. Liðin DWG Kia, Royal Never Give Up og EDward Gaming hafa sýnt mikinn styrkleika og er ljóst að liðin ætla sér alla leið í úrslitaleikinn.

Viper og ShowMaker hvorugur fallið

Tveir leikmenn hafa sýnt tölfræðilega yfirburði í Laugardalshöllinni og farið ófelldir í gegnum fyrstu umferð riðlakeppninnar. Þetta eru þeir Park „Viper“ Do-hyeon, leikmaður EDward Gaming, og Heo „ShowMaker“ Su, leikmaður DWG Kia.

Þrátt fyrir að hafa spilað þrjá leiki hafa þeir ekki verið felldir einu sinni, en báðir hafa spilað mjög vel það sem af er móts. Árangur þeirra er talinn í KDA stigum, stigum sem reiknuð eru útfrá hversu oft leikmenn hafa fellt mótherja, aðstoðað við að fella mótherja og hversu oft leikmenn hafa sjálfir fallið.

Báðir spilað vel

ShowMaker hefur 35 KDA stig eftir fyrstu umferð mótsins, og er hæstur allra leikmanna. Hann hefur spilað framarlega og alls ekki verið í felum, og gefið mótherjum sínum tækifæri á að fella hann án árangurs. Með þessum árangri hefur ShowMaker svo sannarlega stimplað sig inn meðal bestu leikmanna í League of Legends í heimi. 

Viper hefur 32 KDA stig það sem af er móts, og situr hann í öðru sæti listans yfir flestu KDA stigin. Hann og Tian „Meiko“ Ye hafa sýnt að þeir eru með bestu tvíeykjum heims í leiknum og hafa þeir spilað frábærlega saman. Ljóst er að samvinna og mikill metnaður hafa uppskorið frábært gengi Viper og liðs hans það sem af er móts. 

Seinni umferð riðlakeppninnar hefst á morgun, og verður snið keppnisdaganna frábrugðið því sem var í fyrri umferð. Öll seinni umferð A-riðils verður spiluð á morgun, föstudag, B-riðill mun svo klárast á laugardag, C-riðill á sunnudag og D-riðill á mánudag.

mbl.is