Heimsmeistaramótið í Valorant hefst í næstu viku

Nú styttist í heimsmeistaramótið í Valorant sem fer fram í …
Nú styttist í heimsmeistaramótið í Valorant sem fer fram í Berlín. Grafík/Riot Games

Nú styttist í að heimsmeistaramótið í Valorant, eða Valorant Champions, hefjist. Bestu lið heims í leiknum Valorant mætast í Berlín í Þýskalandi og berjast um heimsmeistaratitilinn. Mótið hefst 1. desember næstkomandi og stendur yfir í tólf daga.

Er þetta í fyrsta skipti sem heimsmeistaramótið í leiknum Valorant verður haldið, svo sigurvegari þessa móts verður fyrsti heimsmeistarinn. 

Sextán lið berjast um titilinn

Sextán lið hafa nú tryggt sér sæti á heimsmeistaramótinu í Valorant og munu keppast um hvaða lið er besta lið heims í leiknum. Mótið hefst eftir rúma viku, og verður úrslitaviðureignin leikin 12. desember næstkomandi.

Mótið fer fram í Berlín í Þýskalandi á LAN-viðburði þar sem öll liðin mæta á staðinn til að keppa. Keppt verður í fjórum fjögurra liða riðlum og verður riðlakeppnin tvöföld útsláttarkeppni.

Efstu tvö lið hvors riðils halda svo áfram í úrslitakeppni mótsins sem verður einföld útsláttarkeppni. Allar viðureignir mótsins verða best-af-3 nema úrslitaviðureignin sem verður best-af-5.

Liðin eru nú öll mætt til Berlínar þar sem þau hita upp fyrir mótið og hafa margir leikmenn verið duglegir að setja inn færslur á Twitter um dvöl sína í Þýskalandi.

Gambit Esports og Sentinels talin sigurstranglegust

Þau sextán lið sem keppast um titilinn eru Gambit Esports, Sentinels, Team Envy, KRÜ Esports, Team Vikings, Keys Stars, Acend, Fnatic, Vision Strikers, Crazy Raccoon, X10 CRIT, Team Secret, Cloud9 Blue, Team Liquid, FURIA Esports og FULL SENSE. 

Fyrir mót er rússneska liðið Gambit Esports talið líklegast til sigurs, en norður-ameríska liðið Sentinels fylgir þeim fast á eftir ef marka má mat spámanna. Heildarverðlaunafé mótsins eru tæplega 132 milljónir íslenskra króna. 

Allar viðureignir heimsmeistaramótsins í Valorant verða sýndar í beinni útsendingu á Twitch rás Valorant, en á heimasíðu Valorant Esports er hægt að finna fleiri upplýsingar um dagskrá og úrslit viðureigna mótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert