74 milljónir fylgdust með úrslitunum

EDward Gaming tryggðu sér heimsmeistaratitilinn í League of Legends, og …
EDward Gaming tryggðu sér heimsmeistaratitilinn í League of Legends, og halda heim á leið með 63 milljónir íslenskra króna. Ljósmynd/Riot Games.

Áhorfendatölur úrslitaleikviðureignar heimsmeistaramótsins í League of Legends hafa nú verið gefnar út af Riot Games. Hámarksáhorfi fjölgaði um 60% frá því í fyrra. 

Úrslitaviðureignin var milli suður-kóreska liðsins DWG Kia og kínverska liðsins EDward Gaming. 

Fjölgun milli ára

Hámarksáhorf viðureignarinnar náði 73,860,742 áhorfendum samtímis og er það 60,33% hækkun áhorfenda frá því á mótinu í fyrra. Það voru 30,604,255 áhorfendur að meðaltali á mínútu í úrslitaviðureigninni sem hækkaði um 32,82% frá því í fyrra. 

Var úrslitaviðureigninni streymt á 18 tungumálum af 19 mismunandi útsendurum. Ekki var gefið út hvernig áhorfinu var skipt á milli svæða og landa. Áhorfstölurnar voru fengnar í samstarfi Riot Games með Stream Hatchet.

Upplýsingar þessar voru útgefnar á blaðamannafundi í Chase Center í San Fransisco í Bandaríkjunum, fyrir leik Golden State Warriors og Toronto Raptors í NBA-deildinni.

Á sama blaðamannfundi var tilkynnt að heimsmeistaramótið í League of Legends árið 2022 fer fram í fjórum borgum, Mexíkóborg, New York, Toronto og San Fransisco.

mbl.is