Markmiðið að klifra á toppinn

Andri Snær, einnig þekktur sem andri2k, spilar með Fylki í …
Andri Snær, einnig þekktur sem andri2k, spilar með Fylki í Vodafone-deildinni. Ljósmynd/Hafsteinn S. Þorsteins

Andri Snær Þórarinsson, einnig þekktur sem Andri2k er tuttugu ára gamall rafíþróttamaður og keppir hann í fyrstu persónu skotleiknum Counter-Strike: Global Offensive með Fylki í Vodafone-deildinni.

Eyðir frítímanum með fjölskyldu

Hann spilar aðallega Counter-Strike en segist þó grípa í aðra leiki til þess að koma í veg fyrir kulnun, sem þekkist vel innan rafíþróttageirans á meðal ungra keppenda.

„Þar sem að Vodafone-deildin er í fríi yfir jólin og áramótin þá ætla ég að taka mér góða pásu frá tölvunni og eyða frítímanum með fjölskyldunni og góðum Vinum. Svo byrja ég að æfa með liðinu í byrjun janúar,“ segir Andri í samtali við mbl.is.

„Við reynum að taka liðsæfingar þrisvar til fjórum sinnum í viku en svo reyni ég að eyða klukkutíma á dag í leikum til að halda formi,“ segir Andri en þá spilar hann ýmist leiki með öðrum leikmönnum eða fer eftir sinni eigin æfingarrútínu innanleikjar.

„Ég fer líka eins oft og ég get í ræktina til að fá líkamlega hreyfingu.“

Spilar fleiri leiki

Sem fyrr segir grípur Andri í aðra leiki til spilunar þegar færi gefst og hefur hann þá gaman að því að spila kappakstursleiki sem og aðra fyrstu persónu skotleiki en fyrsti leikurinn sem hann spilaði var Lego Star Wars The Video Game sem hann átti og spilaði í PlayStation 2 sem barn.

„Síðan fór ég yfir í Minecraft sem ég spilaði í PC-tölvunni hjá nágranna mínum þangað til ég fékk mína eigin PC-tölvu. En leikurinn sem ég spilaði langmest var Call of Duty: Black Ops 2 í PlayStation 3.“

Rafíþróttir breyst til hins betra

Vöxtur rafíþrótta á Íslandi kom Andra ekki á óvart og var hann alltaf viss um að þær yrðu stórar hér á landi.

„Starf RÍSÍ hefur gjörbreytt rafíþróttum hér á landi mjög mikið til hins betra. Mér finnst líka frábært að íþróttaliðin séu farin að halda æfingar fyrir unga krakka,“ segir Andri.

Telur Andri sig hafa hafið rafíþróttaferil sinn árið 2019 þegar hann fór á sitt fyrsta LAN-mót með liðinu Somnio.

„Svo ýtti Guffi félagi minn á mig til að fara í prufur fyrir Dusty Academy og þegar það tókst, í mars 2020, fór boltinn að rúlla.“

LAN-mótin eftirminnalegust

Andri myndi vilja sjá fleiri LAN-mót hér á landi en skilur að sama skapi hvers vegna erfitt sé að halda á þessum tímum með tilliti til flensunnar sem hefur verið að ganga um heiminn.

„Annars finnst mér Ísland vera á góðri leið með rafíþróttir eins og með opnun Arena á Smáratorgi og hlutina sem þeir eru að gera. Umfjöllun í fjölmiðlum skiptir miklu máli og hana má auka.“

Telur hann öll þau LAN-mót sem hann hefur farið á vera eftirminnanleg ásamt því að hafa komist upp í Vodafone-deildina og er markmið hans um þessar mundir að haldast í Vodafone-deildinni og reyna í áframhaldi að klifra á toppinn.

Andri hefur ekki verið að streyma eins mikið undanfarið og hann gerði áður en segir að hann muni á nýju ári, streyma meira. Hægt er að fylgjast með honum á Twitch-rásinni andri2k.

Langar þig að vera leikmaður vikunnar? Sendu okkur skeyti á vidja@mbl.is.

mbl.is