Kaupir Activision fyrir níu þúsund milljarða

AFP

Microsoft tilkynnti í dag að fyrirtækið væri að kaupa tölvuleikjarisann Activision Blizzard fyrir 68,7 milljarða bandaríkjadali í reiðufé en það jafngildir rúmlega níu þúsund milljörðum króna. Til samanburðar var landsframleiðsla Íslands tæplega þrjú þúsund milljarðar árið 2020.

Hækkaði um 37%

Hlutabréf Activision hækkuðu um 37% á markaðnum áður en þau voru stöðvuð eftir að Wall Street Journal greindi fyrst frá samningnum en hlutabréf Microsoft féllu um 2% í kjölfar tilkynningarinnar.

Activision, sem er þekkt fyrir vinsæla leiki eins og Call of Duty, World of Warcraft og Tony Hawk's Pro Skater, hefur verið í deilum síðustu mánuði eftir fregnir af kynferðisofbeldi og áreitni meðal stjórnenda fyrirtækisins.

Á mánudaginn sagði Activision að fyrirtækið hafi rekið tugi stjórnenda í kjölfar rannsóknarinnar.

Samkvæmt samningnum mun forstjóri Activision, Bobby Kotick, sem hefur staðið frammi fyrir ákalli um að segja af sér vegna menningarlegra vandamála innan fyrirtækis síns, vera áfram forstjóri og heyra undir Xbox yfirmann Microsoft, Phil Spencer.

mbl.is