Segja sem minnst um svindlvarnarkerfið

Halo Infinite.
Halo Infinite. Grafík/343 Industries/Halo Infinite

Fyrirtækið á bakvið leikinn Halo Infinite skýrir aðeins frá svindlvarnarkerfinu sínu og leggur línurnar fyrir hvernig það mun bæta hlutina í framhaldinu.

Í bloggfærslu byrjaði fyrirtækið á því að opinbera svindvarnarkerfið sitt, Arbiter. En þetta er í fyrsta skiptið sem 343 talar um það af einhverri alvöru.

Vilja segja sem minnst

Fyrirtækið hefur ekki verið að tjá sig mikið um kerfið vegna þess að því meira sem almenningur veit um kerfið, því hraðar og árangursríkar geta tölvuþrjótar fundið leið til að komast framhjá því.

Að sögn 343 er best fyrir Halo Infinite að halda hlutunum í skefjum, til þess að fjölspilunarleikurinn geti verið skemmtilegur en öruggur staður.

„Við viljum halda sem mestu leyndu, eins lengi og hægt er. Allt sem við getum gert eða sagt, í þessu tilfelli ekki sagt, sem verndar aðferðir okkar - er þess virði til þess að vernda leikmenn okkar og upplifun þeirra innanleikjar.“ segir fyrirtækið.

„Við vitum að sum ykkar eru ekki alveg sammála ákvörðun okkar um að hafa haldið þessarri umræðu utan sviðsljóssins fram að þessu. Og þar sem við trúum ekki að árangur nálgunar okkar byggist algjörlega á leynd sinni, viljum við vera eins gegnsæ með núverandi stöðu svindlvarnarinnar eins og við getum.“

343 segir að það sé engin skotheld leið til þess að eiga við svindlara og að þeir munu alltaf, með einhverju móti, láta á sér kræla í Halo Infinite. Þrátt fyrir það mun fyrirtækið gera það sem það getur til þess að sporna við því.

Kerfið verður bætt

Í framtíðinni mun fyrirtækið gera meira til þess að bæta kerfið hjá sér og koma auga á svindlara auk þess að gefa leikmönnum færi á að tilkynna aðra leikmenn innanleikjar fyrir svindl, verði þeir vitni að slíku.

Sem stendur er hægt að tilkynna leikmenn fyrir að svindla eða eitraða hegðun en það fer fram í gegnum stuðningsvef leiksins. Þær tilkynningar fara síðan í rannsókn hjá öryggisteymi leiksins.

„Þar sem að fjölspilun leiksins er gjaldfrjáls, hafa sumir svindlarar búið til nýja aðganga eða spilað á nýjum tölvum til þess að komast hjá aðgerðum okkar. Okkur tekst yfirleitt að bregðast fljótt við með banni en það er meira sem við getum gert í þessu og við erum að sækjast eftir mörgum mismunandi lausnum.“

Nánari upplýsingar um þetta má lesa í bloggfærslu sem birt var á vefsíðu á vegum leiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert