Tilfinningarússíbani í Laugardalnum

Yuma „Dep“ Hashimoto, leikmaður í Zeta Division, fagnar sigri gegn …
Yuma „Dep“ Hashimoto, leikmaður í Zeta Division, fagnar sigri gegn Fnatic sem tryggði liðinu áframhaldi í Masters Reykjavík mótinu. Ljósmynd/Colin Young-Wolff/Riot Games

Þrjár viðureignir voru spilaðar í Laugardalshöllinni í gær á stórmótinu Masters Reykjavík. Nokkkur bestu lið heimsins keppa í tölvuleiknum Valorant frá Riot Games.

Ninjas in Pyjamas og DRX spiluðu fyrstu viðureign gærdagsins klukkan 15:00. Spiluðu þeir sigurviðureign A-riðils og eftir harða baráttu var staðan í lok viðureignar 2:0 fyrir DRX. 

DRX heldur því ótrautt og ósigrað áfram inn í úrslitakeppnina.

Tvö lið duttu út í gær

Klukkan 18:00 mættust svo KRU og OpTic Gaming í úrtökuviðureign og hömuðust á lyklaborðinu við að halda sér í keppninni. 

Viðureignin fór svo að OpTic Gaming gekk af sviðinu eftir 2:0 sigur gegn KRU og hélt því sæti sínu í keppninni og mætir XERXIA síðar í dag.

Seinni úrtökuviðureignin fór fram klukkan 21:00 en þar spiluðu liðin Zeta Division og Fnatic af miklu kappi til þess að halda áfram í mótinu. 

Í lok viðureignar var staðan 2:0 Zeta Division í hag og heldur því Zeta Division áfram í keppninni og mætir Ninjas in Pyjamas í kvöld.

Rússíbani tilfinninga í gær

Hér að neðan má horfa á myndband sem veitir innsýn inn í gærdaginn og hvað gekk á í Laugardalshöllinni. Myndbandið var birt á opinberum Twitter-aðgangi mótsins og kemur fram í fyrirsögn að gærdagurinn hafi verið sannkallaður tilfinninga-rússíbani.

Fyrsta holl mótsins að klárast

Í kvöld klukkan 17:00 mætir XERXIA liðinu OpTic Gaming á ný en þegar liðin spiluðu fyrr á mótinu sló XERXIA OpTic Gaming út af laginu.

Eftir þá viðureign mun Ninjas in Pyjamas mæta Zeta Division klukkan 20:00 og með því ljúka fyrsta holli mótsins.

Að þeirri viðureign lokinni verður ljóst hvaða lið halda áfram í úrslitakeppnina. Nú þegar hafa sex lið tryggt sér sæti í úrslitakeppninni, en það eru liðin DRX, Team Liquid, G2 Esports, The Guard, Paper Rex og LOUD.

Hægt verður að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu á Twitch-rásinni VALORANT.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert