Ný aðferð verður svindlurum til ama

Call of Duty: Vanguard.
Call of Duty: Vanguard. Grafík/Activision Blizzard

Þeir sem svindla í tölvuleiknum Call of Duty: Vanguard eða Warzone gætu orðið nokkuð óhressir með nýjustu uppfærsluna á svindlvarnarkerfinu RICOCHET frá Activision Blizzard.

Teymið á bakvið RICOCHET svindlvarnarkerfið hefur unnið hörðum höndum í baráttunni við svindlara. 

Kerfið býr að ýmsum leiðum til þess að bera kennsl á hegðun svindlara, m.a. með því að safna gögnum þeirra. Svindlvarnarkerfið dregur einnig úr getu svindlara til þess að spila leikinn almennilega. 

Ný aðferð breytir leiknum

Nú hefur kerfið verið uppfært og teymið á bakvið það sett upp nýja tækniaðferð sem kallast „skikkjun“  (e. cloaking). 

Skikkjun hefur gríðarleg áhrif á leikspil svindlara, en þegar leikmenn verða uppvísir að svindli, þá hætta þeir að sjá mótherja sína innanleikjar.

„Persónur, byssuskot, og jafnvel hljóð frá öðrum gildum leikmönnum verða ógreinanleg svindlurum,“ segir í færslu þróunaraðila um uppfærsluna.

Ekki gott fyrir samfélagið

Activision horfir á hvernig svindl geta haft áhrif á alþjóðlega stöðutöflur í Vanguard. En verði leikmaður, sem situr á stöðutöflunni uppvís að svindli og bannaður fyrir vikið, mun nafn hans vera fjarlægt af töflunni.

Með því fá heiðarlegir leikmenn meira svigrúm til þess að klifra á toppinn.

mbl.is