Spilað sem dreki í fyrsta sinn

Dracthyrar í World of Warcraft: Dragonflight.
Dracthyrar í World of Warcraft: Dragonflight. Grafík/Blizzard

Fyrsti fasi alpha-prufunnar í World of Warcraft: Dragonflight er hafinn sem þýðir að nokkrir heppnir leikmenn hafa fengið að prófa hann.

Að venju mun Blizzard veita fleiri leikmönnum aðgang að alpha-útgáfunni þegar leikurinn er kominn lengra í þróun. Síðan fá enn fleiri leikmenn aðgang að leiknum skömmu fyrir útgáfu, eða þegar Dragonflight fer í beta-útgáfu sem verður eftir nokkra mánuði. 

Blizzard hefur verið að sýna stuttlega frá leiknum og hvers má vænta þegar hann kemur út. Til dæmis hefur Blizzard veitt innsýn í Azure, hönnunarmöguleika Dracthyra, hliðarkunnáttur (e. professions) og fleira.

Hér að neðan má horfa á stutt sýnishorn af Azure, sem er hluti af Drekaeyjunum. Azure verður þar að auki eitt af stærstu svæðunum í leiknum fram að þessu.

Nýjar föndurstöðvar

Þegar komið er til Drekaeyjanna munu leikmenn koma auga á nýjar föndurstöðvar undir allar hliðarkunnáttur, nema eldun og járnsmíði. 

Blizzard segir markmiðið með þessum nýju föndurstöðvum vera til þess að bæta upplifun leikmanna í sambandi við valdar hliðarkunnáttur og til þess að auka félagslega virkni. 

Nánar um þetta og fleiri atriði í sambandi við hliðarkunnáttur í Dragonflight má lesa með því að fylgja þessum hlekk.

Spilað sem dreki í fyrsta sinn

Dracthyr er nýr kynþáttur innan WoW sem er einskonar blendingur af manni og dreka, en þá geta leikmenn í fyrsta skiptið spilað sem dreki - ekki bara með dreka-reiðskjóta.

Kynþátturinn er bundinn við sinn eigin klassa, sem þýðir að Dracthyrar geta ekki spilað aðra klassa á borð við t.d. Hunter eða Priest. Að sama skapi getur enginn annar kynþáttur spilað Dracthyr-klassann.

Leikmenn hafa úr mörgu að velja þegar þeir hanna Dracthyrinn sinn og eins eru margir litir í boði fyrir hann. Til dæmis er hægt að sérsníða hornin, hreistrið, trýnið og augun þeirra en þar að auki geta leikmenn valið um líkamsbyggingu persónu sinnar. 

mbl.is