Krefja stelpur ekki um að spila tölvuleiki

Stelpurnar í Babe Patrol. Frá vinsti Eva, Högna, Kamila og …
Stelpurnar í Babe Patrol. Frá vinsti Eva, Högna, Kamila og Alma. mbl/Eggert Jóhannesson

Í kvöld verða strákar bannaðir í rafíþróttahöllinni Arena vegna kvennakvölds Babe Patrol sem hefst í kvöld klukkan 19:00.

Í samtali við mbl.is segir Eva Margrét, einn streymandi af fjórum í streymishópnum Babe Patrol, að kvöldið verði sérstakt og að þær hafi unnið hörðum höndum að undanförnu við að undirbúa það.

„Okkur langaði að halda sérstakt kvöld fyrir stelpur, þar sem við getum komið saman, spilað tölvuleiki og skemmt okkur,“ segir Eva.

„Ég held að það hafi ekki oft verið svona viðburður haldinn hér á landi, þá meina ég sérstakt tölvuleikja- og stelpukvöld og við erum ótrúlegar spenntar fyrir þessu.“

Fyrstu stelpurnar fá gjafapoka

Sem fyrr segir hafa stelpurnar í Babe Patrol, þær Eva, Alma, Högna og Kamila, verið á fullu við að undirbúa kvöldið ásamt starfsfólki Arena.

Þar að auki hafa nokkur fyrirtæki slegist í lið með þeim til þess að gera kvöldið sérstakt og gefa fyrstu 30 stelpunum sem mæta sérstaka gjafapoka.

Á dagskránni er happdrætti og einstaklega vandræðalegur spurningaleikur á barnum en hægt er að vinna til veglegra vinninga í hvoru tveggja.

Miðinn kostar 2.990 krónur og er bæði hægt að kaupa sér miða á heimasíðu Arena og í dyragættinni við mætingu. Hverjum miða fylgir happdrættismiði svo viðburðargestir fara sjálfkrafa í pottinn við mætingu.

Engin krafa um að spila tölvuleiki

Eins hafa stelpur aðgang að tölvum Arena allt kvöldið og geta því spilað að vild, en það verður líka farið af stað með nokkur smámót í ýmsum leikjum. Er því nóg um að vera í Arena í kvöld og engin krafa um að spila tölvuleiki.

„Það er alls engin krafa um að þú verðir að spila tölvuleiki um kvöldið, það má líka bara mæta og skemmta sér með góðum mat og drykkjum,“ segir Eva en fjöldi tilboða verða á barnum og veitingastaðnum Bytes í kvöld, en hann er staðsettur inni í Arena.

mbl.is