Gekk um Reykjavík eins og risaeðla eftir söfnunina

Streymandinn og tölvuleikjaspilarinn Óla Blöndal, einnig þekkt sem olalitla96, hélt uppi söfnunarstreymi á dögunum til styrktar Krabbameinsfélagsins og endaði á því að ganga niður Laugaveginn í gervi risaeðlu.

Streymið fór fram þann 4. mars og var þá mikið spjallað, spilað, hlegið og tekið á áskorunum til þess að skemmta áhorfendum meðan þeir gáfu pening sinn í styrktarsjóðinn.

Óla Blöndal lítið feimin við að syngja í karíókí í …
Óla Blöndal lítið feimin við að syngja í karíókí í beinni útsendingu. Skjáskot/Aðsent

Dansað og sungið í beinni

Í streyminu tók hún einnig léttan dans eða söng þegar ákveðinni upphæð var náð, en það var einnig hægt að skora sérstaklega á hana að syngja eða dansa.

„Ég bjó til sérstaka senu til að syngja karaokí og til að dansa, með green screen. Eitthvað sem ég ætla halda áfram að nota héðan í frá, því fólkið var að elska það!“ segir Óla í samtali við mbl.is.

„Það var annað hvort sent mig í karaokí herbergið eða á dansgólfið!“

Hægt er að horfa á streymið í heild sinni hér að neðan en hún hefur áður haldið söfnunarstreymi sem þetta, þá síðast til styrktar fjölskyldu í Texas. Þeim var báðum streymt á Twitch-aðgangi Ólu, en hér að neðan má sjá nýrra góðgerðastreymið.

Sýndi frá göngunni í beinni

Í lok streymis þegar hún þakkaði áhorfendum fyrir alla hjálpina, lofaði hún þeim að ganga niður Laugaveginn í risaeðlubúning og sýna frá því í beinni útsendingu með hjálp snjallsíma.

„Það var alveg meira af fólki niðri í bæ en ég bjóst við að yrðu. Nokkrir vildu mynd með mér og fólkinu fannst rosa skemmtilegt að sjá þetta! Sérstaklega litlu krakkarnir.“

Í myndbandinu efst í fréttinni og hér að neðan má sjá Ólu ganga um í risaeðlubúning og vekja bros á andliti gangandi vegfarenda í miðbæ Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert