Microsoft semur og semur

Microsoft reynir að eignast tölvuleikjaframleiðandann Activision Blizzard.
Microsoft reynir að eignast tölvuleikjaframleiðandann Activision Blizzard. AFP

Það er að hitna allverulega í kolunum í baráttu Microsoft gegn Sony. Stjórnendur Microsoft reyna nú að semja við sem flesta leikjatölvuframleiðendur og streymisveitur í þeirri von að sigla inn sigri og fá leyfi til þess að kaupa tölvuleikjaframleiðandann Activision Blizzard.

Hver á Call of Duty?

Ein stærsta hindrunin í þessu máli er eignarrétturinn á tölvuleikjaseríunni Call of Duty en Sony, framleiðandi Playstation leikjatölvanna, segir hætta á því að Microsoft muni gera leikina eingöngu aðgengilega fyrir eigendur Xbox leikjatölvanna og því er þetta mikið tap fyrir eigendur Playstation og annarra leikjatölva.

Stjórnendur Microsoft segja það hins vegar ekki vera rétt og markmið þeirra sé að reyna að stækka Activision Blizzard og það gerist ekki með því að takmarka aðgengi að leiknum.

Margir stórir samningar

Til þess að reyna fullvissa alla aðila um að leikurinn verði handa öllum hefur Microsoft brugðið á það ráð að semja við sem flesta. Hér er hægt að sjá nýjustu samninga Microsoft við fjölda tæknifyrirtækja.

Nintendo

Microsoft ætlar að opna fyrir Call of Duty á Nintendo leikjatölvurnar og gerði nýlega 10 ára samning við fyrirtækið. Síðasti Call of Duty leikur sem kom á Nintendo-tölvurnar var Call of Duty: Ghosts árið 2013 og er því löngu tímabært að láta reyna á þetta aftur.

Ljósmynd af Nintendo Switch tölvu.
Ljósmynd af Nintendo Switch tölvu. Ljósmynd/Unsplash/Brandon Romanchuk

Nvidia

Nvidia er einn fremsti framleiðandi íhluta í borðtölvur og heldur einnig úti búnaði sem heitir Nvidia GeForce sem gerir spilurum kleift að streyma Xbox leikjum yfir í borðtölvur, Apple tölvur og snjallsíma svo eitthvað sé nefnt. 

Grafík/Nvidia

Ubitus

Ubitus er þjónusta sem svipar til Nvidia GeForce en fyrirtækið sérhæfir sig í leikjastreymi á netþjónum (e. cloud streaming). 

Skjáskot/Ubitus

Boosteroid

Einn merkilegasti samningurinn var við úkraínsku streymisveituna Boosteroid. Boosteroid er tiltölulega ný streymisveita og mun samningurinn við Microsoft veita henni nýtt líf. Boosteroid gerir spilurum kleift að spila leiki í gegnum vafra. 

Skjáskot/Boosteroid
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert