Fyrrum atvinnumaður ætlar ekki að spila

Fyrrum rafíþróttamaðurinn Patrik „f0rest“ Lindberg.
Fyrrum rafíþróttamaðurinn Patrik „f0rest“ Lindberg. Skjáskot/EPL

Goðsögnin og fyrrum atvinnumaður í Counter-Strike, Patrik „f0rest“ Lindberg, segist ekki ætla spila nýja útfærslu leiksins, Counter-Strike 2, fyrr en Valve tekur á svindlurum.

Útgáfan var tilkynnt nýlega en nokkrir útvaldir fá aðgang að leiknum og geta byrjað að spila og æfa sig þar til hann kemur út seinna á þessu ári.

Útvalinn til þess að spila leikinn

Margir atvinnumenn og fyrrum atvinnumenn fengu aðgang að leiknum og hafa nú prófað sig áfram og reynt að venjast breytingunum en þurft að glíma við að keppa við svindlara.

Í síðustu tilraun f0rest að spila Counter-Strike 2 lenti hann í því að keppa gegn svindlara sem sá aðra leikmenn í gegnum veggi.

Erfitt að spila

Hann segir ekki hægt að venjast leik og spila hann ef andstæðingarnir geti svindlað án þess að framleiðandi leiksins geri neitt í því. Hann segist einnig ekki ætla spila leikinn fyrr en þetta verði lagað.

Svindlið er auðvelt í framkvæmd en spilari þarf einungis að skrifa inn kóða í leiknum sem kveikir á möguleikanum að sjá leikmenn í gegnum veggi, þetta þarf að laga sem fyrst. 

Patrik „f0rest“ Lindberg er sænskur Counter-Strike spilari og keppti í leiknum frá árinu 2005 til ársins 2022.

Hann varð frægur fyrir sitt hlutverk í liði Ninjas in Pyjamas sem var gífurlega sterkt á fyrstu árum Counter-Strike:Global Offensive og vann flest sem hægt var að vinna á fyrstu árum leiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert