„Ef fólkið fagnar fær það sýningu“

CadiaN er þekktur fyrir að fagna vel og innilega.
CadiaN er þekktur fyrir að fagna vel og innilega. Skjáskot/Blast

Eftir slæma frammistöðu á stórmótinu í Counter-Strike í París reynir rafíþróttaliðið Heroic að sýna takta sína og sanna sig á ný sem eitt besta lið heims. Nú stendur yfir bandaríska mótið IEM Dallas og hafa Heroic verið frábærir síðan mótið hófst.

Heroic eru komnir í undanúrslit eftir að hafa unnið viðureignir við liðin 9z, MOUZ og stórliðið G2 og eru því mjög sigurstranglegir fyrir úrslitahelgina sem fer af stað í kvöld.

Einn besti leikmaður mótsins er cadiaN en hann hefur átt frábæra leiki það sem af er móti en sá danski var spenntur fyrir úrslitahelginni þegar hann mætti í viðtal eftir að ljóst var að Heroic væri komið í undanúrslit. 

Voru bestir í heimi

„Við vorum besta lið heims þar til Vitality kom og vann tvö mót í röð. Þeir hafa sýnt stöðugleika og eru góðir í því að loka leikjum. Við reynum okkar besta að halda hausnum á réttum stað núna því við viljum sigra þetta mót. 

Áhugavert er að fimm af sex liðunum sem keppa um helgina eru með danskan fyrirliða. „Danir eru mjög góðir í íþróttum sem þarf góða liðsheild, við hugsum um liðið og sjáum til þess að hlutir gangi upp. Það er mikilvægt að öllum í liðinu líði vel“.

Hann segist einnig vera spenntur fyrir því að spila fyrir framan bandaríska áhorfendur. „Þegar Heroic spilaði fyrir framan áhorfendur í Atlanta fyrir nokkrum árum fékk liðið góðan stuðning, ég á marga vini hér og ef fólkið fagnar þá fær það sýningu“. 

Heroic mætir annaðhvort Astralis eða MOUZ á laugardag klukkan 16.30 að íslenskum tíma.

mbl.is