Hamilton færist aftur á rásmarkinu

Það blasir við Lewis Hamilton hjá Mercedes að verða færður aftur um fimm sæti á rásmarkinu í Barein á morgun þar sem liðið hefur ákveðið að skipta um gírkassa í bíl hans.

Gírkassinn nýi verður í bílnum þegar lokaæfingin fyrir tímatökuna í Barein hefst síðar í dag.

Til að komast hjá refsingu vegna gírkassaskipta þarf slíkur gripur að vera í bíl í sex mótum. Þarf Hamilton því óhjákvæmilega að sæta afturfærslu. 

Skipt verður einnig um gírkassa í bíl liðsfélaga Hamiltons, Valtteri Bottas, en þar sem hann tók út refsingu fyrir gírkassaskipti í Melbourne sætir hann ekki afturfærslu að þessu sinni.

„Við glímdum við vökvakerfisleka í kappakstrinum í Melbourne og vorum heppnir að komast alla leið í mark,“ segir í tilkynningu frá Mercedes.

Afturfærslan þýðir að Hamilton muni í besta falli hefja kappaksturinn í sjötta sæti en þá er miðað við að hann yrði fyrstur í tímatökunni. Hann var ekki í fremstu fylkingu á æfingum gærdagsins og kláraði þá seinni rúmlega hálfri sekúndu á eftir Ferraribílunum.

mbl.is