Schumacher 50 ára — ástandið enn óljóst

Michael Schumacher er 50 ára í dag.
Michael Schumacher er 50 ára í dag. AFP

Þýski ökuþórinn Michael Schumacher „mótaði og breytti Formúlu-1 kappakstrinum til frambúðar“ sagði Toto Wolff, stjóri Mercedes-liðsins í Formúlunni, í tilefni af því að Schumacher er fimmtugur í dag.

Þjóðverjinn er sigursælasti ökumaður Formúlunnar en hann varð alls heimsmeistari sjö sinnum.

29. des­em­ber árið 2013 hlaut hann al­var­lega höfuðáverka í skíðaslysi í Frakklandi og hefur ekki sést opinberlega síðan. Ökuþórinn lá lengi á sjúkra­húsi þar í landi en var flutt­ur á sér­út­búna gjör­gæslu heima hjá sér í ná­grenni Genf tæpu ári síðar. Þar dvel­ur hann enn.

„Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða hann,“ kom fram í yfirlýsingu sem fjölskylda Schumachers sendi frá sér í gær. „Þið getið verið viss um að hann fær bestu mögulegu aðstoð.“

Fjölskyldan sagðist fylgja óskum ökuþórsins og bað fólk að skilja að heilsa hans væri einkamál. Í dag yrði sigrum hans og metum fagnað.

„Schumacher setti ekki einungis ótrúleg met, sem hafa ekki verið slegin, heldur mótaði hann og breytti íþróttinni til frambúðar,“ sagði Wolff. Hann bætti því við að Schumacher hefði hugað að hverju smáatriði og að hann hefði stöðugt viljað bæta sig.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert