Vettel landaði þriðja sigri Ferrari í röð

Liðsmenn Ferrari fagna Sebastian Vettel við marklínuna í Singapúr.
Liðsmenn Ferrari fagna Sebastian Vettel við marklínuna í Singapúr. AFP

Sebastian Vettel á Ferrari var í þessu að vinna kappaksturinn í Singapúr. Annar varð liðsfélagi hans Charles Leclerc og þriðji Max Verstappen á Red Bull.

Leclerc hóf  keppni af ráspól og hélt forystu fram í miðjan kappakstur en í þjónustuhléunum tókst Vettel að skjótast fram úr honum og halda fyrsta sætinu eftir það til enda.

Tækifæri gáfust til sviptinga þar sem öryggisbíll var kallaður þrisvar út í brautina á seinni klukkutíma kappakstursins en allt kom fyrir ekki; Vettel ók til síns fyrsta sigurs á árinu og þriðja mótssigurs Ferrari á árinu og það í röð.  Vann Leclerc þá tvo fyrri.

Liðsfélagarnir Lewis Hamilton og Valtteri Bottas hjá Mercedes settu minna mark á kappaksturinn en oftast á árinu og urðu í fjórða og fimmta sæti á mark.

Meiri stöðubreytingar áttu sér stað út í gegn meðal ökumanna í miðjum hópi- og þeim aftasta. Brá þar oft fyrir góðum tilþrifum og sviptingum.

Í sætum sex til tíu - í  þessari röð - urðu Alexander Albon á Red Bull, Lando Norris á McLaren, Pierre Gasly á  Toro  Rosso, Nico Hülkenberg á Renault og Antonio Giovinazzi á Alfa Romeo. Liðsfélagi hans Kimi Räikkönen hafnaði á öryggisvegg undir lokin og var sjálfhætt fyrir hann.

Liðsmenn Ferrari samfagna Sebastian Vettel eftir sigur hand í Singapúr.
Liðsmenn Ferrari samfagna Sebastian Vettel eftir sigur hand í Singapúr. AFP
Liðsfélagarnir Sebastian Vettel (t.v.) og Charles Leclerc takast í hendur …
Liðsfélagarnir Sebastian Vettel (t.v.) og Charles Leclerc takast í hendur að keppni lokinni í Singapúr en þar fóru þeir með tvöfaldan Ferrarisigur af hólmi. AFP
mbl.is