Hætta við kappakstur í Kína

Frá síðasta kappakstri Formúlu 1 í Sjanghæ árið 2019.
Frá síðasta kappakstri Formúlu 1 í Sjanghæ árið 2019. AFP/Greg Baker

Forsvarsmenn Formúlu 1 hafa ákveðið að hætta við að halda kappakstur í Sjanghæ í Kína á næsta ári vegna strangra reglna í tengslum við kórónuveiruna þar í landi.

Í Kína er stefna við lýði sem ber heitið „Zero Covid,“ sem miðar samkvæmt stjórnvöldum að því að útrýma veirunni.

Felur stefnan í sér regluleg útgöngubönn og einangranir, sem hefur orðið til þess að kínverskir borgarar hafa staðið fyrir mótmælum undanfarna daga.

Formúla 1 átti í viðræðum við kínversk stjórnvöld undanfarnar vikur en niðurstaðan var sú að forsvarsmönnum hennar fannst ekki stætt á að láta kappakstur fara fram í Sjanghæ vegna stöðunnar.

Kappaksturinn í borginni átti að fara fram þann 16. apríl á næsta ári, sem hefði verið í fyrsta skipti sem kappastkur í Formúlu 1 er haldinn í Kína síðan árið 2019, en ekkert verður af því.

mbl.is